Guterres: ítreka ber fordæmingu á hryðjuverkum Hamas

António Guterres
António Guterres. Mynd UN Photo/Eskinder Debebe

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur alþjóðasamfélagið til að ítreka „algjöra fordæmingu” á hryðjuverkaárás á Ísrael undir forystu Hamas fyrir einu ári 7.október 2023.

Um tólf hundruð og fimmtíu Ísraelar og erlendir borgarar voru drepnir á hrottalegan hátt.Tvö hundruð og fimmtíu manns var rænt, þar á meðal mörgum konum og börnum.

„Það er kominn tími til að sleppa gíslunum. Það er kominn tími til að byssurnar þagni. Það er kominn tími til að stöðva þjáningarnar sem hafa breiðst út um þennan heimshluta,” sagði António Guterres í yfirlýsingu. Hann hvatti til friðar, endurreisnar alþjóðlegra laga og réttlætis til handa öllum fórnarlömbum og eftirlifendum.

Hann bætti því við að fórnarlömb hefðu mátt þola ólýsanlegt ofbeldi, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi.

Leyfa ber Rauða kross að hitta gísla

„Á þessum degi ber alþjóðasamfélaginu að ítreka hátt og snjallt algjöra fordæmingu okkar á viðurstyggilegum verknaði Hamas, þar á meðal gíslatöku.”

Undanfarið ár hefur Guterres hitt fjölskyldur gísla sem enn eru í haldi til að kynnast lífi þeirra, vonum og draumum.

„Ég get vart gert mér í hugarlund þær píslir sem fólkið má þola dag hvern,” sagði hann. Hann sagði að Hamas beri að leyfa Alþjóðanefnd Rauða krossins að heimsækja gíslana og veita þeim nauðsynlega aðhlynningu.

Að halda fast í von

 Hann sagði að hryðjuverkin hefðu hrundið af stað „öldu skelfilegs ofbeldis og blóðsúthellinga.”

„Stríðið sem fylgdi í kjölfar hinna hræðilegu árása fyrir ári heldur áfram og eyðileggur líf og veldur Palestínumönnum á Gasa og nú Líbanonbúum hræðilegum þjáningum..”

 Hann sagði að „þrátt fyrir allt verðum við að halda í vonina.”

Sjá einnig hér.