Guterres gagnrýnir „öld refsileysis” -Líbanon má ekki verða að öðru Gasa

António Guterres í ræðustól.
António Guterres við upphaf 79.Allsherjarþingsins.. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi að alþjóðalög væru þverbrotin í heiminum í dag án þess að hinir ábyrgu þyrftu að standa reikningsskil. Guterres gerði refsileysi að umtalsefni í opnunarávarpi í almennum umræðum þjóðarleiðtoga á 79.Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann segir að Líbanon megi ekki verða að öðru Gasa.

Aðalframkvæmdastjórinn harmaði að „refsileysi ríkti í heiminnum“, og „þrálát brot og misnotkun græfu undan stoðum alþjóðalaga og Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Og ekkert gerist

Guterres gagnrýndi að „sífellt fleiri ríkisstjórnir kæmust upp með það refsilaust að troða fótum alþjóðalög.“

António Guterres flytur ávarp sitt við upphaf almennu umræðnanna. António Guterres í ræðustól.
António Guterres flytur ávarp sitt við upphaf almennu umræðnanna. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

 „Þær geta brotið Sáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guterres. „Þær geta gefið alþjóðlegum mannúðarlögum langt nef, lagt heilu samfélögin í eyði og vanrækt hagsmuni eigin þegna. Og ekkert gerist.“

Hann sagði að sjá mætti „öld refsileysis,“ hvarvetna frá Mið-Austurlöndum og Evrópu til austurodda Afríku.

Philemon Yang fyrir miðju, forsetia 79.Allsherjarþingsins
Philemon Yang fyrir miðju, forsetia 79.Allsherjarþingsins. UN Photo/Loey Felipe

Líbanon má ekki verða annað Gasa

Hann hvatti til friðar á grundvelli Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu. Þá varaði hann við því að „endalausa martröðin í Gasa” gæti hrifið með sér allan heimshlutann.

„Líbanonbúar og ísraelska þjóðin -og aðrir heimshlutar,- mega ekki við því að Líbanon verði að öðru Gasasvæði.“

Hann fordæmdi hryðjuverk og gíslatöku Hamas, en sagði einnig að ekkert réttlæti sameiginelga refsingu palestínsku þjóðarinnar.

„Þoka ber heiminum í átt til minna refsileysis og meiri ábyrgðar.“

Fylgjast má með umræðunum hjá Sameinuðu þjóðunum hér.