Gasasvæðið. Mannúðaraðstoð. Gervigreind. Ísrael ber að gjörbreyta aðferðum sínum; forðast að drepa almenna borgara og leyfa stóraukna aðstoð við Palestínumenn. Þetta sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi með fréttamönnum í tilefni af því að sex mánuðir eru liðnir frá því átök blossuðu upp á Gasasvæðinu.
Guterres minntist þess að átökin hefðu blossað upp eftir „andstyggilega” hryðjuverkaárás undir forystu Hamas 7.október síðastliðinn og sagði ekkert réttlæta hana.
„Ég fordæmi enn einu sinni beitingu kynferðislegs ofbeldis, pyntingar, mannrán, eldflaugaárásir á óbreytta borgara og beitingu fólks sem mannlegra skjalda,” sagði Guterres og krafðist lausnar allra gísla.
Ekkert réttlætir sameiginlega refsingu
En síðustu sex mánuði hefðu hernaðaraðgerðir Ísraels kallað „stanslausan dauða og tortímingu” yfir Palestínumenn. Nú er talið að rúmlega 32 þúsund manns hafi verið drepnir, mikill meirihluti konur og börn.
Hann sagði enga virðingu borna fyrir alþjóðalögum. Milljónir stæðu andspænis „hrikalegu hungri.”
Börn létust af matar- og vatnsskorti. „Þetta er óskiljanlegt og fullkomlega fyrirbyggjanlegt,” sagði yfirmaður Sameinuðu þjóðanna og sagði ekkert réttlæta slíka sameiginlega refsingu.
Gervigreind sem vopn
Guterres sagðist sérstaklega hafa þungar áhyggjur af því að Ísraelsher notaði gervigreind til að ákveða skotmörk við látlausar sprengjuárásir sínar á íbúðabyggðir á Gasasvæðinu.
„Engum ákvörðunum um líf og dauða heilu fjölskyldnanna skyldi úthýst til kaldrifjaðs útreiknings algóriþþma.”
Gervigreind ætti einungis að beitaí þágu hins góða en ekki til að stunda manndráp í stórum stíl, þar sem markalínur um hvar ábyrgð liggur væru þurrkaðar út. Guterres hefur áður hvatt til banns við notkun gervigreindarstýrðra vopna,
Hann sagði að stríðið væri hið mannskæðasta fyrir mannúðarstarfsmenn. 196 hafa verið drepnir, þar af 175 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, langflestir hjá Palestínuflóttamannahjálpinni UNRWA.
Enn minnti Guterres á að upplýsingastríð geisaði. Ísrael meinaði erlendum fréttamönnum um aðgang að Gasa, en slíkt gæfi falsfréttum byr undir báða vængi.