António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þungum áhyggjum af samþykkt ísraelska þingsins Knesset, sem mun að öllum líkindum koma í veg fyrir áframhaldandi starf UNRWA á herteknum svæðum Ísraels í Palestínu, þar á meðal í Austur-Jerúsalem.
„UNRWA er helsta leiðin til þess að koma nauðsynlegri aðstoð til palestínskra flóttamanna á herteknum svæðum í Palestínu. Það er enginn valkostur við UNRWA,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn í yfirlýsingu.
Ef lagasetningunni verður framfylgt, mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir palestínska flóttamenn á herteknu svæðunum, sem Guterres segir að sé „óviðunandi.“

„Ég hvet Ísrael til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við aljóðalög, þar á meðal alþjóðleg mannúðarlög og önnur lög um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna. Innlend löggjöf getur ekki undanskilið ríki frá þessum skuldbindingum,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn.
Vísað til Allsherjarþingsins
Guterres hefur vísað málinu til Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, en UNRWA starfar í umboði þess. Hann segir að ef þessum lögum verði framfylgt muni það grafa undan lausn deilu Ísraela og Palestínumanna og friði og öryggi í öllum heimshlutanum.”
„Eins og ég hef sagt áður er UNRWA ómissandi,“ sagði Guterres.
Sjá nánar um UNRWA hér og hér.