Íbúar Mið-Austurlanda standa andspænis alvarlegri hættu á skelfilegu allsherjarstríði, segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna efitr árás Írans á Ísrael. Hann hvatti deilendur til að gæta „ýtrustu stillingar.“ Hann sagði að heimshlutinn riðaði á barmi átaka nokkrum klukkustundum eftir að Íran réðst með drónum og flugskeytum á Ísrael.
„Það er þýðingarmikið að forðast hvers kyns aðgerðir sem geti leitt til meiriháttar hernaðarátaka á mörgum vígstöðvum í Mið-Austurlöndum..Nú er tími fyrir ýtrustu stillingu,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn á neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Fordæmdi árás
Guterres fordæmdi „stórfellda árás“ Írans á Ísrael. „Ég hvet til þess að átökin verði stöðvuð þegar í stað.“
Yfirmaður Sameinuðu þjóðanna sagði að borist hefði bréf frá írönskum stjórnvöldum. Þar hafi þau skýrt frá hernaðarárás á ísraelsk hernaðar-skotmörk og „fært sér í nyt rétt Írans til sjálfsvarnar samkvæmt ákvæðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, sem svar við árásinni 1.apríl á sendiskrifstofur í Damaskus.“
Skylda að vinna að friði
Aðalframkvæmdastjórinn minnti á sameiginlega skyldu alþjóðasamfélagsins að koma í veg fyrir frekari stigmögnun. Hann sagði að það væri að sama skapi sameiginleg skylda til að tryggja vopnahlé í mannúðarskyni á Gasasvæðinu, auk tafarlausrar og skilyrðislausrar lausnar gísla og óhindraðs aðgangs fyrir mannúðaraðstoð.
„Það er sameiginlega ábyrgð okkar að vinna að friði. Látlaust er grafið undan friði og öryggi í heimshlutanum og raunar heiminum öllum. Hvorki þessi heimshluti né heimurinn allur hafa efni á meira stríði,“ sagði Guterres.