Hvarvetna er verið að grípa til hvata-aðgerða í efnahagslífinu. Það er engin furða því út um allan heim standa ríkisstjórnir frammi fyrir því að ræsa þarf efnahagslíf heimsins að nýju. En á sama tíma og leiðtogar heimsins horfast í augu við það aðkallandi verkefni að hvetja efnahagslífið, ber þeim einnig að horfa til lengri tíma. Þeir verða að sjá til þess í sameiningu að hið nýja efnahagsmódel sem í raun og veru, er verið að skapa, reynist sjálfbært fyrir plánetuna og framtíð okkar á henni.
Við þurfum bæði á efnahagshvata að halda og langtímafjárfestingu. Leitast ætti við að ná tvennum markmiðum í einu vetfangi með hnattrænu efnahagslegu átaki. Slíkt átak myndi taka til brýnna efnahagslegra og félagslegra þarfa hér og nú, en um leið myndi það ýta úr vör nýju alþjóðlegu grænu hagkerfi. Í stuttu máli þurfum við að gera “grænan vöxt” að einkunnarorðum okkar.
Samstilltra aðgerða er þörf
Í fyrsta lagi er rökrétt að bregðast við samstilltum samdrætti sem nær til alls heimsins með samstilltum aðgerðum um allan heim. Nauðsynlegt er að grípa til hvata-aðgerða með nánu samráði allra helstu hagkerfa. Varast ber aðgerðir sem bitna á nágrönnum eins og tíðkaðist í Heimskreppunni miklu. Samráð er einnig brýnt til að draga úr fjárflótta, áhlaupum á gjaldmiðla og óðaverðbólgu og efla tiltrú neytenda og fjárfesta. Leiðtogar G20 ríkjahópsins lýstu því yfir í Washington í nóvember síðastliðnum að þeir væru staðráðnir í að ”efla samvinnu og vinna saman að því að endurvekja hagvöxt í heiminum og stuðla að nauðsynlegum umbótum á fjármálakerfum heimsins.” Það er brýnt að hrinda þessu í framkvæmd.
Hvataðgerðir miða að því að endurræsa efnahagslífið en ef rétt er haldið á spilunum geta þær einnig falið að farin sé ný, kolefnasnauð leið sem leiði til græns hagvaxtar. Ef niðurstöðutölur aðgerða þrjátíu og fjögurra ríkja eru lagðar saman, kemur í ljós að 2250 milljarða dala (€1750 milljarða evra) á að nota til að hvetja efnahagslífið. Þessum efnahagshvata, auk álíka frumkvæðis annara ríkja, ber að verja til þess að færa hagkerfi heimsins inn í 21. öldina í stað þess að berja í bresti deyjandi iðngreina og úreltra ósiða gærdagsins.
Ef dæla á billjónum dala til að viðhalda framleiðslu sem byggist á nýtingu kolefna og niðurgreiðslum til slíkrar framleiðslu, væri rétt eins hægt að setja féð í undirmálslánin á fasteignamarkaði sem voruþúfan sem velti hlassinu í fjármálakreppunni.
Ef þrjú hundruð millljarða dollara niðurgreiðslur í heiminum á notkun jarðefna eldsneytis yrðu skornar niður, myndi hvort tveggja draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um sex prósent og heimsframleiðslan aukast. Þróun endurnýjanlegrar orku er mikilvægt lóð á vogarskálarnar, einmitt þar sem þörfin er mest. Hagkerfi þróunarríkja nota nú 40 prósent af endurnýjanlegum orkjugjöfum í heiminum auk 70% af hitun vatns með sólarorku.
Leiðtogar annars staðar, sérstaklega í Bandaríkjunum og Kína, eru farnir að átta sig á því að grænir kostir eru ekki aðeins valkostir heldur nauðsynlegir liðir í því að endurvekja efnahagslífið og skapa störf. Á heimsvísu starfa nú 2.3 milljónir manna í endurnýjanlega orkugeiranum en það er meira en fjöldi þeirra sem vinna í olíu- og gasiðnaðnum. Í Bandaríkjunum eru fleiri störf í vindorkuiðnaðnum en í öllum kolaiðnaðnum. Hvata-aðgerðir Barack Obama og Kína eru mikilvæg skref í rétta átt og brýnt er að fylgja eftir græna þættinum í þeim.
Við hvetjum allar ríkisstjórnir til að auka græna þáttinn í hvata-aðgerðunum, þar á meðal að auka orkusparnað, notkun endurnýjanlegrar orku, efla almennings samgangöngur, bæta flutningskerfi rafveitna og auka skógrækt. Nauðsynlegt er að samræma aðgerðir til að ná skjótum árangri.
Aðgerðir gegn fátækt
Í öðru lagi þurfum við á aðgerðum að halda til að koma til móts við fátæka. Í mörgum þróunarríkjum hafa ríkisstjórnir ekki það úrræði að geta tekið lán eða prentað peninga til að draga úr efnahagslegum skakkaföllum. Af þeim sökum ber ríkisstjórnum í þróuðum ríkjum að leita út fyrir landamæri sín og fjárfesta nú þegar í skilvirkum áætlunum sem auka framleiðni hinna fátækustu. Á síðasta ári brutust hungur óeirðir út í 30 ríkjum. Það er skelfileg staðreynd að þetta var áður en fjármálakreppan skall á í september en hún hefur nú valdið samdrætti á heimsvísu. Síðan þá hafa hundrað milljónir manna sokkið dýpra í fátæktarfenið. Við verðum að grípa til aðgerða nú þegar til þesss að hindra frekari þjáningar og hugsanlega mikla útbreiðslu pólitísks óstöðugleika.
Þetta þýðir að auka þarf framlög til þróunarsamvinnu á þessu ári. Efla þarf félagslegt öryggisnet. Fjárfesta þarf í landbúnaði í þróunarríkjum í því skyni að útvega smábændum útsæði, verkfæri og sjálfbær úrræði og lán til þess að þeir geti framleitt meiri fæðu og komið henni á markað.
Aðgerðir gegn fátækt fela einnig í sér auknar fjárfestingar í bættri landnotkun, varðveislu vatnsbóla og uppskeru sem þolir þurrka til þess að hjálpa bændum að aðlagast loftslagsbreytingum. Ef ekki er brugðist við þessu, gæti viðvarandi hungur og vannæring breiðst út í stórum hluta þróunarheimsins.
Samkomulag í Kaupmannahöfn
Í þriðja lagi þurfum við á öflugu loftslagssamkomulagi að halda í Kaupmannahöfn í desember. Ekki næsta ár. Á þessu ári. Hefjast verður handa strax í dag því lyfta þarf grettistaki nú þegar í loftslagsviðræðunum. Nauðsynlegt er að menn á æðstu stöðum einbeiti sér að því að blása nýju lífi í viðræðurnar. Árangursríkt samkomulag í Kaupmannahöfn er besti hugsanlegi efnahagshvatinn á heimsvísu sem völ er á. Fyrirtæki og ríkisstjórnir hafa óskað ítrekað eftir því að fá verðmiða á kolefnanotkun. Slíkt yrði að raunveruleika með samþykkt loftslagssáttmála og þar með yrðu losað um hömlur á hrinu fjárfestinga í nýsköpun og fjárfestingum í hreinni orku. Kaupmannahafnar-samkomulag gæfi grænt ljós á grænan vöxt. Þetta eru stoðir raunverulega sjálfbærs efnahagsbata sem er okkur öllum í hag og býr í haginn fyrir börnin okkar næstu áratugi.
Milljónir manna frá Detroit til Dehli lifa nú erfiða tíma. Fjölskyldur hafa tapað störfum sínum, heimilum, sjúkratryggingum og jafnvel voninni um næstu máltíð. Þegar svo mikið er í veði verða ríkisstjórnir að vera vandfýsnar á úrræði. Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum og fórna ekki langtímahagsmunum á altari skyndilausna. Fjárfestingar í grænu hagkerfi eru ekki dýr kostur. Þær eru skynsamleg fjárfesting í réttlátari framtíð allsnægta.
Ban Ki-moon er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Al Gore er fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafi Nóbels.
(Greinin birtist fyrst 17. febrúar á ensku í Financial Times og á íslensku á www.nattura.info)