Loftslagsbreytingar. Hækkun yfirborðs sjávar. Grænland. Grænlandsjökull.
Milljarðar tonna af ís á Grænlandsjökli bráðnuðu á síðasta ári. Jökullinn rýrnaði um sem samsvarar 80 gígatonnum 2023-2024 samkvæmt nýjum tölum frá GEUS, Landfræðirannsóknum Danmerkur og Grænlands. Var þetta tuttugasta og áttunda árið í röð, sem jökullinn rýrnaði.
„Við höfum reiknað út að jökullinn tapi, sem samsvarar 2.5 milljónum lítra á sekúndu árið um kring, nótt sem nýtan dag,“ segir Andreas Ahlstrøm jöklafræðingur hjá GEUS í viðtali við vefsíðu UNRIC.
Þetta þýðir hundrað og fimmtíu milljónir lítra á mínútu, níu þúsund milljónir á klukkustund og tvö hundruð og sextán þúsund milljónir á sólarhring.
„Það er svolítið erfitt að átta sig á þessu magni, en til að setja þetta í samhengi er þetta álíka og allt vatn úr þremur keppnissundlaugum rynni til hafs á hverri sekúndu. Nú, eða að öll vatnsneysla Dana, þar á meðal dansks iðnaðar, er 1 gígatonn á ári,“ segir Ahlstrøm.
Og þá vaknar spurningin hvað er gígatonn mikið, en þessi mælieining er töluvert notuð í umræðum um losun gróðurhúsalofttegunda svo dæmi sé tekið.
80 gígatonnin, sem bráðna af Grænlandsjökli árlega, vega álíka mikið og áttatíu milljarðar fíla sem hver er fimm tonn að þynd; sextán þúsund milljónir fullhlaðinna Boeing 747 farþegaþotna eða tvö hundruð þrjátíu og tveir Giza-píramídar.
Eins metra hækkun yfirborðs sjávar fyrir aldarlok
Vísindamenn hjá landfræðistofnuninni GEUS hafa fylgst með ástandi Grænlandsjökuls um árabil. Frávik eru ár frá ári en almennt séð má segja Grænlandsjökull hafi minnkað stöðugt í nærri þrjá áratugi.
„Þetta heldur stöðugt áfram. Þetta er þung lest, sem komin er af stað, og ekki heiglum hent að stöðva hana. Breytingar munu halda áfram, jafnvel þótt öll losun gróðurhúsalofttegunda myndi hætta í dag,“ segir Ahlström.
„Við vitum að hitastigið hækkar þrisvar til fjórum sinnum meir á Norðurslóðum en að meðaltali í heiminum.”
Þetta ár frá hausti 2023 til sumarloka í ár var bráðnunin minni á yfirborði jökulsins vegna snjókomu í júlí og ágúst. Hins vegar, losnuðu fleiri ísjakar og flutu á haf út en venjiulega. Þegar upp er staðið hefur því jökullinn rýrnað.
Að loknu bráðununartímabilinu í ár hefur bráðnunin stuðlað að 0.2 millimetra hækkun yfirborðs sjávar. Alls hefur bráðnun hans valdið 15.9 millimetra hækkun frá 1986 að mati GEUS.
Þessar niðurstöður eru sannarlega engar ýkjur, heldur þvert á móti íhaldssamar. Bandarískir vísindamenn, sem hafa rannsakað gervihnattamyndir, hafa komist að þeirri niðurstöðu að bráðnunin sé mun meiri eða sem nemi allt að 270 gígatonnum á ári. „Hluti skýringarinnar er sú að þeir mæla einnig staðbundna jökla og íshettur í útjaðrinum“, útskýrir Ahlstrøm. „Þá gefa mismunandi aðferðir mismunandi niðurstöður.”
„Þetta bitnar á fólki í Bangladesh”
GEUS spáir því að yfirborð sjávar muni hafa hækkað um einn metra á heimsvísu við lok tuttugustu og fyrstu aldarinnar, miðað við núverandi losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) telur að hækkunin muni nema að meðaltali á bilinu 15 til 30 sentimetrum um miðja öldina, 2050.
Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) hefur skýrt frá því að yfirborð sjávar hafi slegið met 2023 og aldrei verið hærra miðað við gervihnattamyndir sem teknar hafa verið frá árinu 1993.
Ekki bætir úr skák að hækkun yfirborðsins hefur aukist hraðar síðustu tíu ár og verið tvöfalt meiri en fyrstu árin sem gervihnattagögn ná til eða 1993-2002.
„Þetta mun bitna á fólki í Bangladesh, og þetta snertir íbúa lágt liggjandi Kyrrahafseyja hér og nú,“ segir Ahlstrøm. „Þegar til lengri tíma er litið mun þetta koma hart niður á öllum jarðarbúum og bitna á öllu þéttbýli við sjó.“
Leiðtogafundur um hækkun yfirborðs sjávar
Fyrsti leiðtogafundur um þessa uggvænlegu þróun í heiminum var haldinn 25.september 2024 á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Talið er að líf og lífsviðurværi eins milljarðs manna um allan heim sé í hættu.
Fulltrúar lítilla þróunar-eyríkja í Kyrrahafi fögnuðu þessu frumkvæði. Sögðu þeir löngu tímabært að þetta málefni skuli komið á dagskrá alþjóða samfélagsins. Hvöttu þeir til tafarlausra alþjóðlegra aðgerða til að stemma stigu við hækkun yfirborðs sjávar.
„Við berum enga ábyrgð á þeirri hættu sem að okkur steðjar,“ sagði Feleti Teo forsætisráðherra Tuvalu. „Fyrir mörg okkar er um að ræða hættu sem við glímum við nú þegar, ekki spá um framtíðina.“
Yfirborð sjávar hefur hækkað um 9.4 sentímetra að meðaltali síðastliðin þrjátíu ár að mati Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO). Hins vegar nemur hækkunin 15 sentímetrum á Kyrrahafi, sem skýrir þá miklu hættu sem steðjar að Kyrrahafseyjunum.
Loftslagsbreytingar: COP29
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsótti lágt liggjandi Kyrrahafseyjar síðastliðið sumar til að kynna sér þar loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra af eigin raun.
Í ummælum sínum á leiðtogafundinum um þetta málefni hvatti hann hóp 20 helstu iðnríkja heims (G20) til að taka forystuna í loftslagslagsmálum. Saman bera þau ábyrgð á 80% af losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.
„Við þurfum á öflugri fjárhagslegri niðurstöðu að halda á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2024 (COP29),“ sagði Guterres.
Sjá einnig hér.
(Greinin hefur verið uppfærð með upplýsingum um niðurstöður bandarískra vísindamanna)