Vopnahlé. Lömunarveiki. Gasasvæðið.
Hjálparstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn hafa tekið höndum saman um að hvetja til vopnahlés til þess að greiða fyrir bólusetningum við lömunarveiki á Gasasvæðinu. Talið er nauðsynlegt að bólusetja um 640 þúsund börn, tíu ára og yngri, eftir að fyrstu tilfelli veikinnar í 25 ár voru staðfest.
Norrænar stofnanir á borð við Hjálparstofnun dönsku kirkjunnar og Norska flóttamannaráðið eru á meðal þeirra sem krefjast vopnahlés.
Berst með saurgerlum
Lömunarveiki (e. polio) er einnig kölluð mænusótt eða mænuveiki og er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar. Smit berst oftast manna á milli með saurgerlum, til dæmis gegnum mengað vatn. Í innan við 1% tilvika berst veiran í miðtaugakerfið og skaðar þá hreyfitaugunar og veldur þannig lömun og jafnvel dauða segir á Vísindavef Háskóla Íslands.
Að minnsta kosti fimmtíu þúsund börn sem fæðst hafa frá því átökin hófust fyrir 10 mánuðum munu tæpast verða bólusett vegna hruns heilbrigðiskerfisins. Endurteknar bólusetningar eldri barna á Gasa, alls einnar milljónar, hafa raskast.
Hafði verið útrýmt fyrir 20 árum
Lömunarveiki hafði verið útrýmt á Gasasvæðinu fyrir rúmum tveimur áratugum. Í síðasta mánuði skýrði Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) frá því að veirunnar hefði orðið vart í sýnum úr skólipi í Khan Younis og Deir Al-Balah. Fyrr í þessum mánuði greindist veiran í tíu mánaða gömlu barni í Deir Al-Balah á miðju Gasasvæðinu.
Ástæða þess að lömunarveikisveiran skýtur upp kollinum á ný á Gasa er bein afleiðing eyðileggingar innviða svo sem vatnsveitu og skolps. Ísraelsstjórn hefur takmarkað mjög viðgerðir og birgðaflutninga. Þessu til viðbótar er þröngt setinn bekkurinn þar sem fólk hefur leitað skjóls, heilbrigðiskerfið hrunið og fólk stöðugt neytt til að flytja sig um set vegna átaka. Þá eru börn sérstaklega berskjölduð fyrir smiti vegna vannæringar og mikils álags.
Bóluefni til en þarf vopnahlé
Um tuttugu hjálparstofnanir og tuttugu heilbrigðisstarfsmenn, sem starfað hafa á Gasa, segja að bóluefni sé til í heimshlutuanum og hægt sé að dreifa honum í þessum mánuði og næsta. Til að svo megir verða þarf að leyfa fullan aðgang mannúðaraðstoðar til Gasa um allar landamærastöðvar og örugga og óhindraða flutninga á Gasasvæðinu sjálfu. Til þess að svo megi verða þarf að koma á vopnahléí.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tók í sama streng á föstudag. „Ég hvet stríðandi fylkingar til að gefa raunhæfar tryggingar til að mannúðarstarfsmenn geti á öruggan hátt bólusett hálfa milljón barna gegn lömunarveiki.”
„Við skulum tala tæpitungulaust: eina raunhæfa bólusetningin við lömunarveiki er friður og tafarlaust vopnahlé í mannúðarskyni. Allavega er hlé vegna lömunarveiki lífsnauðsyn.”