Sameinuðu þjóðirnar. Gasasvæðið. Mannúðaraðstoð. Sigrid Kaag nýr samræmandi mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna á Gasa segir að ekki aðeins sé mannúðaraðstoð við íbúaa Gasasvæðisins ónóg heldur sé „sífellt torveldara að koma henni til nauðstaddra.”
Sigrid Kaag, sem var skipuð í embætti sitt í byrjun árs, greindi utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna frá ástandinu á fundi í Brussel í gær.
Mannúðarstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna, og samstarfsaðila þeirra, mæta sífelldum hindrunum. Ýmist er þeim meinað að flytja mannúðaraðstoð yfir landamærin til Gasasvæðisins, tafir verða, fjarskipti rofin eða skotið er á þá.
Kaag ræddi við utanríkisráðherrana um hvernig hægt sé að bæta aðgang fyrir mannúðaraðstoð á Gasa með það sérstaklega í huga að hún komist í hendur þeirra sem höllustum standa fæti.
„Það var mikill stuðningur við verkefnið og viðleitni okkar á vettvangi,” sagði Kaag í samtali við blaðamenn eftir fundinn.
Öryggisleysi
Hún dró ekki dul á að burtséð frá hernaðaraðgerðum væri mikið öryggisleysi. Örvinglaðir óbreyttir borgarar reyndu að komast yfir aðstoð upp á eigin spýtur, auk rána og gripdeilda og glæpastarfsemi. „Þetta hindrar viðleitni mannúðarsamtaka, jafnt Sameinuðu þjóðanna sem félagasamtaka á staðnum, við að koma aðstoð til skila til þeirra sem mest þurfa á henni að halda.”
Kaag er fyrrverandi varaforsætis- og fjármálaráðherra Hollands. Frá því hún var skipuð í embætti 8.janúar hefur hún kynnt Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna bráðabirgðaskýrslu og ráðleggingar um birgðaflutninga- og flutningsleiðir til Gasa á landi, sjó og úr lofti.
Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Alþjóðabankinn hefjast handa við mat á skemmdum á Gasasvæðinu í byrjun mars.