Gasasvæðið. Mannúðaraðstoð. Frakkland ætlar að auka mannúðaraðstoð sína við Gasasvæðið úr 20 milljónum Evra í 100 milljónir. Emmanuel Macron forseti Frakklands tilkynnti þetta í dag á alþjóðlegri mannúðarráðstefnu í París um Gasa.
Tugir þúsunda manna hafa haldið áfram að streyma frá norðurhluta Gasasvæðisins til suðurs um „hlið”, sem Ísraelsher opnaði. Það mun loka síðdegis.
Hundruð þúsunda eru enn norðan við Wadi Gaza og líða fyrir hræðilegan aðbúnað og fá vart nægjanlegt vatn og mat til að halda lífi.
Al Quds sjúkrhahúsið í Gasaborg varð að loka í gær vegna eldsneytisskorts. Lokun blasir við Al Awda sjúkrahúsinu á hverri stundu, en það er eina fæðingarsjúkrahús í norðurhluta Gasa.
10,000 látnir þar af 99 SÞ-liðar
99 starfsmenn Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA) hafa verið drepnir á Gasa. Er það mesta mannfall meðal hjálparstarfsmanna Sameinuðu þjóðanna á á svo skömmum tíma í átökum.
Þeir eru á meðal þeirra 10 þúsunda sem látist hafa frá upphafi átakanna að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasa.
Rúmlega 700 þúsund manns hafa leitað skjóls í 150 skólum og öðrum byggingum UNRWA. Aðbúnaðurinn er víða óviðunandi með öllu. Húsakynnin eru troðfull og matur og vatn af skornum skammti.
Salernis- og hreinlætisaðstaða er svo slæm, að lýðheilsu stafar hætta af að sögn Philippe Lazzarini forstjóra UNRWA.
Munum við deyja?
„Starfssystir mín Maha starfar við birgðavörslu á Gasa. Hún sýnir styrk þótt börnin hennar spyrji hana á hverjum degi hvort þau muni deyja. Hún gerir sitt besta þegar hún horfir upp á þann kvíða sem hún sér á andlitum þeirra,“ sagði Lazzarini.
„Starfsbróðir minn Farid er yfir menntamálum á Gasa,“ hélt hann áfram.
„Þegar hann hittir nemendur sína í búðum okkar, spyrja þeir hann, hvers vegna við höfum varið svo miklum tíma í að kenna þeim lausn á deilum og um mannréttindi, ef þessi réttindi eiga ekki við á Gasa.
Hverju á hann að svara?
Þúsundir látinna barna geta ekki verið óhjákvæmleg afleiðing átaka… Að takmarka verulega vatn, mat og lyf felur í sér sameiginlega refsingu.”
Hvatt til vopnahlés
Margir ræðumenn á ráðstefnunni í París, þar á meðal Emmanuel Macron Frakklandsforseti, hvöttu til tarflauss vopnahlés í mannúðarskyni.
„Við verðum að tvíefla viðleitni okka til að aðstoða og vernda óbreytta borgara á Gasa,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í fyrirfram uppteknu ávarpi, sem leikið var á ráðstefnunni. „Það felur í sér tafarlaust vopnahlé í mannúðarskyni. Það felur í sér að alþjóðleg mannnúðarlög verði virt að fullu. Það þýðir að sjúkrahús, starfsstöðvar Sameinuðu þjóðanna, skýli og skólar njóti verndar.“