Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Gasasvæðið. Bandaríkin hafa beitt neitunarvaldi gegn ályktun í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um stöðvun átaka til að greiða fyrir flutningi mannúðaraðstoðar til Gasasvæðisins.
Brasilía bar fram tillöguna en í henni var hvers kyns ofbeldi og árás á óbreytta borgara fordæmd. Þá var hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael fordæmd.
12 ríki greiddu atkvæði með tillögunni, þar á meðal tvö ríki sem eiga fast sæti í Öryggisráðinu, Frakkland og Kína. Rússland og Bretland sátu hjá. Bandaríkin beittu neitunarvaldi á þeim forsendum að réttur Ísraels til sjálfsvarnar væri ekki nefndur.
António Guterres hvatti til þess í gær að þegar í stað yrði samþykkt vopnahléð til að draga úr „þjáningum íbúa af sögulegri stærðargráðu.
Sameinuðu þjóðirnar í viðbragðsstöðu
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru reiðubúnir að flytja mannúðaraðstoð til Gasa um leið og gefið verður grænt ljós. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur flutt 310 tonn af matvælum til landamæra Gasastrandarinnar.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur harðlega fordæmt árás á sjúkrahús á Gasa sem kostað hefur hundruð manna lífið.
Þá hefur Catherine Russell forstjóri UNICEF lýst þungum áhyggjum af afdrifum barna á Gasavæðinu, en 300 þúsund börn hafa hrakist frá heimilum sínum á aðeins 11 dögum.
Hér má finna nánari upplýsingar frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna um ástandið.
UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpin uppfærir daglega upplýsingavef sinn, sem nálgast má hér.
OCHA, Samræmingarskrifstofa mannnúðarmála birtir nýjar upplýsingar daglega, sjá hér.