Fyrsti alþjóðlegi hreinsunardagur SÞ: úrgangur þekkir engin landamæri

Plokkað í Brussel
Plokkað í Brussel. Mynd. UNRIC

Úrgangsstjórnun. Alþjóðlegur hreinsunardagur verður haldinn í fyrsta skipti föstudaginn 20.september á vegum Sameinuðu þjóðanna Markmiðið er að vekja fólk til vitundar um með hvaða hætti hreinsun styður við Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

Dagurinn er einnig kjörið tækifæri til að deila skilvirkum og snjöllum lausnum sem hægt er að hrinda í framkvæmd um allan heim. Jafnframt er markmiðið að ýta undir samfélagslega virkni og glæða alþjóðlega samvinnu í að takast á við glímuna við úrgang.

Alþjóða hreinsunardags-teymið tekur við verðlaunum 23.júlí 2023. Heidi Solba önnur frá vinstri, Tómas Knútsson lengst til hægri.
Alþjóða hreinsunardags-teymið tekur við verðlaunum 23.júlí 2023. Heidi Solba önnur frá vinstri, Tómas Knútsson lengst til hægri. Mynd: ©FAO/Cristiano Minichiello.

Plokk og strandhreinsun

 Alþjóða hreinsundardagurinn er ekki nýr af nálinu en Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í lok síðasta árs að 20.september skyldi vera Alþjóðlegur hreinsunardagur á vegum samtakanna.

Sjálfboðaliðar, samfélög og ríkisstjórnir hafa um árabil skipulagt hreinsunarátök til að hreinsa umhverfið. Á Íslandi hafa margir lagt hönd á plóginn og má nefna svokallaða plokkara, og strandhreinsun Bláa hersins undir forystu Tómasar Knútssonar og átak Hrafns heitins Jökulssonar á Ströndum.

Standhreinsun.
Standhreinsun. Mynd: OCG Saving The Ocean /Unsplash

Tromsø ríður á vaðið

 Alþjóðlegi hreinsunardagurinn hefur það markmið að vekja athygli á mikilvægi starfs af þessu tagi við að viðhalda hreinu og heilbrigðu umhverfi.

Fyrsta alþjóðlega hreinsunardeginum verður hleypt afstokkunum á föstudag í Tromsø í Noregi. Þema dagsins er „Borgir á norðurslóðum og rusl í sjónum.“ Þar er sjónum beint að nýsköpun Norðmanna í úrgangsstjórnun með sérstöku tilliti til óblíðrar veðráttu.

Plastmengun á Timor-Leste
Plastmengun á Timor-Leste. UN Photo /Martine Perret

Hversu mikill er vandinn?

 Á hverju ári verða til tveir milljarðar tonna af rusli í borgum heimsins. Árið 2022 var 82% af því rusli sem safnast saman sótt, en aðeins 55% af úrganginum var meðhöndlaður.

Þegar úrgangur er ekki fluttur á brott getur það haft skaðvænlegar afleiðingar á heilsuna (sýkingar), umhverfið (plastmengun og losun gróðurhúsalofttegunda) og félags- og efnahagslega þróun. Tveir milljarðar manna njóta ekki þjónustu sorphirðu.

Matarsóun
matarsóun

Hvert mannsbarn sóar 121 kílói af mat

Í skýrslu umhverfisstofnunar  Sameinuðu þjóðanna um meðhöndlun úrgangs í heiminum (UNEP Global Waste Management Outlook 2024) er því spáð að úrgangur í þéttbýli aukist úr 2.1 milljarði tonna 2023 í 3.8 milljarða 2050.

Of miklum mat er sóað. Talið er að 17% allra matvæla sé sóað á heimilum, verslunum og við vinnslu. Það þýðir 121 kíló á hvert mannsbarn á ári. Þar af fer 60% til spillis á heimilum. Matarsóun og tap hefur umtalsverð umhverfisáhrif og félagslegar og efnahagslegar afleiðingar.

Rafsorp í Gana.
Rafsorp í Gana. Mynd: Muntaka Chasant / Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Ómeðhöndlað rafsorp

Úrgangsstjórnun nær sjáldnast til rafsorps. Árið 2019 nam rafsorp 7.3 kílóum á mann, en aðeins 1.7 kíló voru urðuð á öruggan hátt.

Úrgangur sem berst frá landi veldur að mestu leyti þeirri mengun sem er í hafinu. Árið 2021 lentu meir en 17 milljónir tonna af plasti í heimshöfunum eða 85% af sorpi í sjónum. Magn plastmengunar sem bætist við í hafinu mun tvö- eða þrefaldast fyrir 2040 og ógnar öllu lífríki hafsins.

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn
Plastmengun á Fílabeinsströndinni. Mynd: Ollivier Girard/UNEP

Hvað ber að gera? 

Úrgangur þekkir engin landamæri. Mengun af völdum úrgangs getur stefnt heilsu okkar í hættu, auk þess að skaða umhverfið. Þýðingarmikið er að koma í veg fyrir myndun úrgangs og að öðrum kosti stjórna þeim úrgangi sem verður til á sjálfbæran hátt. Allir hlutaðeigandi; opinberir aðilar, einkageirinn og borgaralegt samfélag, verða að taka höndum saman við að minnka úrgang og stefna að engum úrgangi og efla hringrásarhagkerfið.

Alþjóðlegi hreinsunardagurinn er öflugur vettvangur til að vekja fólk til vitundar um þær milljónir tonna úrgangs sem eru engri úrgangsstjórnun háðar. Virkja þarf borgir um allan heim í að hreinsa upp úrgang og rusl.

Jörðin utan úr geimnum.
Jörðin utan úr geimnum. Mynd: NASA

Skyldur við komandi kynslóðir

Við getum öll lagt hönd á plóginn með skynsamlegri neyslu. Við getum reynt að forðast vöru sem eru í of miklum umbúðum og nota afl neytenda til að hafa áhrif á störf fyrirtækja.

Alls staðar sem því verður við komið ber að endurnota, endurnýta, fylla á og flokka.

Við höfum öll skyldum að gegna við að varðveita hreina og heilbrigða plánetu í þágu komandi kynslóða.