Fulltrúar hundrað ríkja undirrita bann við klasasprengjum

Fulltrúar um eitt hundrað ríkja undirrituðu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við notkun klasasprengja við hátíðlega athöfn í Osló í gær. Klasasprengjur eru vopn sem oft bana óbreyttum borgurum og valda miklum skaða jafnvel áratugum eftir að átökum lýkur.   

Klasasprengjur voru fyrst notaðar í síðari heimsstyrjöldinni. Þær innihalda fjölda smásprengna sem dreifast yfir svæði á stærð við fótboltavöll. Margar þeirra springa hins vegar ekki og ógna því lífi og limum fólks áratugum saman.

Þetta veldur því að þessi vopn eru sérstaklega skeinuhætt óbreyttum borgurum sem örkumlast eða deyja löngu eftir lok átaka. Um 98% fórnarlamba eru óbreyttir borgarar, og af þeim tíu þúsund sem þær hafa grandað eru 40% börn.  

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í skilaboðum til ráðstefnunnar í Osló að það væri mjög brýnt að allar ríkisstjórnir undirrituðu og staðfestu sáttmálans. Hann gerði að umræðuefni að margar ríkisstjórnir hefðu breytt fyrri stefnu sinni og undirritað samninginn.
“Margar ríkisstjórnir sem eiga fulltrúa hér búa yfir verulegum hernaðarmætti og taka þátt í friðargæslu. Þær hafa komist að þeirri niðurstöðu að stefna þeirra fram að þessu væri ekki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar þeirra og gætu torveldað enduruppbyggingu og þróunarstarfi,” sagði hann. 

Sáttmálinn var samþykktur á ráðstefnu í Dublin í maí á þessu ári. Samkvæmt honum er aðiljum sáttmálans bannað að nota, flytja og safna slíkum vopnum og eiga að losa sig við birgðir innan tilskilins tíma.

 Sem dæmi um skaðsemi klasasprengja má nefna að þrjátíu árum eftir að átökum lauk í Laos hefur landið enn ekki verið hreinsað af þeim 75 milljón ósprungnu smásprengjum úr klasasprengjum sem varpað var á landið. Í júlí og ágúst 2006 var klasasprengjum varpað á 48 milljónir fermetra lands í Líbanon og drápu og særðu meir en 300 óbreytta borgara