Friðarskilaboð hafa blasað við þjóðhöfðingjum og öðrum þátttakendum í almennum umræðum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú standa yfir.
Skilaboðin eru afrakstur herferðarinnar “Txt 4 peace”, (Sms í þágu friðar). Milljónir smáskilaboða þar sem hvatt er til friðar hafa verið send og tóku farsíma- og internetnotendur í 132 ríkjum þátt í herferðinni.
Friðarskilaboðunum er varpað á skjái í höfuðstöðvunum í New York á meðan almennar umræður fara fram.
Upplýsingadeild Sameinuðu þjóðanna skipulagði herferðina til að minnast Alþjóðlega friðardagsins 21. september. Skilaboðin eru birt á vefsíðunni http://www.peaceday2008.org/ en þeim er líka varpað á skjái á Allsherjarþinginu.
Friðardagsins var minnst víða um heim en óvíða af jafn miklum krafti og í Afganistan. Þar virtu stjórnarhermenn og hersveitir NATO einhliða vopnahlé í tilefni dagsins.
Friðargæslusveit SÞ á Timor-Leste hélt friðardaginn hátíðlegan.