FRAMKVÆMDASTJÓRI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA: Ummæli í öryggisráðinu um ástandið í Darfur 11. September 2006

Hr. forseti,

Harmleikur geisar nú í Darfur sem nú stendur á tímamótum. Ástandið krefst athygli og aðgerða af hálfu Öryggisráðsins.

Það er mikilvægt að við ræðum öll af hreinskilni um það sem er að gerast og hvað þarf til að binda enda á þjáningar margra milljóna manna. 

Mér er það mikil ánægja að sjá fulltrúa Afríkusambandsins, Arababandalagsins og Samtaka íslamskra ríkja viðstadda hér í dag. Það er líka mikilvægt að ríkisstjórn Súdans situr fundinn.

Hr. forseti,

Við höfum öll heyrt síðustu fréttir af nýjum bardögum á milli stríðandi fylkinga, aðallega í Norður-Darfur. Þúsundir súdanskra stjórnarhermanna hafa verið fluttir á staðinn, sem er skýrt brot á friðarsamningnum. Enn alvarlegra er að loftárásir eru hafnar að nýju. 

Ég fordæmi þessa stigmögnun átaka. Ríkisstjórnin ætti að stöðva árásirnar þegar í stað og láta af slíkum aðgerðum. 

Síðustu bardagar hafa kallað enn meiri hörmungar yfir íbúana sem hafa mátt þola alltof mikið nú þegar. 

Enn einu sinni hefur fólki verið stökkt á flótta. 1.9 milljón manna hefur nú flosnað upp. Nærri þrjár milljónir manna í Darfur verða nú að treysta á alþjóðlega aðstoð til að fá mat, húsaskjól og læknisþjónustu. 

Bardagarnir gera hjálparstarfsmönnum illa kleyft að ná til þessa fólks. Matvælahjálpin (World Food Programme) gat ekki komið matvælum til 470 þúsunda sveltandi manna í júlí. WFP gat brotist til suður Darfur í ágúst en ekki hefur tekist að koma matvælaaðstoð til 355 þúsunda manna í norður Darfur   – og er það í flestra tilfelli þriðja mánuðinn í röð. Aðgangurinn hefur ekki verið jafn lítill frá því í júlí 2004 en þá undirritaði ég yfirlýsingu ásamt utanríkisráðherra Súdans.

Hjálparstarfsmenn hafa mátt þola hrottalegt ofbeldi, harðræði og illskeyttan róg. Mörgum ökutækjum hefur verið stolið. 12 hjálparstarfsmenn hafa týnt lífi á síðustu tveimur mánuðum sem er meira en á tveimur undanförnum árum. Við vottum þeim virðingu okkar en við hvorki getum né viljum sætta okkur við dauða þeirra. Hjálparstarfsmenn verða að geta unnið störf sín óhindrað og í fyllsta öryggi.

Aðgangur að bágstöddum hefur minnkað og sá árangur sem náðst hefur í mannúðarmálum á undanförnum tveimur árum er í hættu. Ef öryggisástandið skánar ekki, þurfum við að horfast í augu við að draga úr bráðnauðsynlegum mánnúðaraðgerðum.

Getum við með góðri samvisku látið slík örlög bíða íbúa Darfurs? Getur alþjóðasamfélagið setið auðum höndum á meðan harmleikur geisar í Darfur eftir að hafa látið hjá líða að koma íbúum Rúanda til hjálpar í þeirra neyð? Við samþykktum fyrir ári síðan verndarskylduna (responsibility to protect), getum við fallið á enn einu prófinu? Annað hvort lærum við af reynslunni eða ekki; annað hvort fylgjum við grundvallarreglum eða ekki. Tími málamiðlanna, hálfvelgju og áframhaldandi umræðna er liðinn. 

Hr. forseti.

Síðustu bardagar sýna algjöra lítilsvirðingu við friðarsamkomulagið í Darfur. 

Þær vonir sem samkomulagið vakti, verða nú að engu. Síðustu atburðir brjóta í bága við fjölmargar samþykktir Öryggisráðsins og rjúfa heit sem hafa verið gefin, þar á meðal um að beita ekki fleiri súdönskum stjórnarhermönnum. Slíkar aðgerðir eru lagalega og siðferðilega óásættanlegar.

Svo virðist sem þeir sem fyrirskipað hafa slíkar aðgerðir, trúi því að til sé hernnaðarlausn á ástandinu í Darfur. Samt sem áður ætti öllum að skiljast eftir allan þann dauða og tortímingu sem kölluð hefur verið yfir Darfur, að friður mun einungis komast á með fullu pólitisku samkomulagi allra aðila.

Friðarsamkomulagið í Darfur gefur okkur tækifæri til að koma á friði, eins og skýrt kom fram í samþykkt ráðsins númer 1706. Á næstu dögum munum við á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna hitta háttsetta fulltrúa Afríkusambandsins til að ganga frá stuðningi okkar við sveit þess í Súdan. Friðargæslusviðið mun einnig boða fund þeirra sem hugsanlega munu leggja sendinefnd SÞ í Darfur til her- og lögreglumenn. 

Hr. forseti.

Afríkusambandið hefur á ótvíræðan hátt bent á nauðsyn þess að friðargæsla Sameinuðu þjóðanna taki við af sveitum sambandsins, í samræmi við ákvarðanir Öryggisráðsins. Afríkusambandið hefur líka án nokkura tvímæla lýst nauðsyn þess að sveit Afríkusambandsins haldi áfram störfum þangað til þær verði leystar af hólmi og ítrekað nauðsyn þess að koma í veg fyrir að grafið sé undan ákvörðunum sem teknar hafa verið í þessu skyni. Arababandalagið hefur líka boðið stuðning til bilið verði brúað og lýst þeirri skoðun að sveitir Afríkusambandsins haldi áfram störfum til áramóta.

Við getum ekki snúið bakinu við sveitum Afríkusambandsins. Sveitir Afríkusambandsins hafa sýnt hugprýði við erfiðar aðstæður. Þær hfa mikilvægu hlutverki að gegtna þar til sveitir SÞ leysa þær af hólmi. En þær skortir enn nauðsynlegt bolmagn. Ég hvet bandamenn Afríkusambandsins enn til þess að leggja sitt af mörkum til að þær geti haldið áfram störfum á umskiptatímanum.  

Við skulum tala tæpitungulaust. Við vitum öll að ríkisstjórn Súdans hafnar umskiptunum. Og að ráðið hefur viðurkennt að án samþykkis hennar geti SÞ ekki tekið við. 

Enn einu sinni hvet ég því ríkisstjórn Súdans til að starfa í anda ályktunar 1706; að samþykkja að SÞ leysi Afríkusambandið af hólmi og að taka með endurnýjuðum þrótti þátt í pólitíska ferlinu. Íbúar Darfur munu líða fyrir núverandi stefnu stjórnvalda. En ríkisstjórnin mun einnig líða fyrir það ef hún bregst heilagri skyldi sinni að vernda sína eigin íbúa. Hún munu uppskera lítilsvirðingu og skömm allrar Afríku og alls aljóðasamfélagsins. Það sem meira: hvorki þeir sem taka slíkar ákvarðanir eða framfylgja þeim skulu halda að þeir verði ekki látnir sæta ábyrgð.

Mínar hvatningar munu duga skammt til að sannfæra ríkisstjórnina. Ég hef margsinnis reynt að útskýra fyrir ríkisstjórninni umskiptin frá friðargæslu Afríku til SÞ og reynt að útrýma misskilningi og bábiljur. Jafnt opinberlega sem í einkasamtölum hef ég lagt áherslu á neyðarástandið og höfðað til skynsemis ríkisstjórnarinnar. Nú er kominn tími til að fleiri raddir heyrist. Ríkisstjórnir og einstakir leiðtogar í Afríku jafnt sem annars staðar sem hafa möguleika á að hafa áhrif á Súdan, ættu að beita þrýstingi nú þegar. Öryggisráðið verður að tala einni, skýrri og sterkri röddu.

Hr. forseti.

Þetta er ögurstund íbúa Darfurs. En þetta markar einnig tímamót í Öryggisráðinu sjálfu. Í meir en tvö ár hafið þið unnið að því að hindra bardaga og bæta ástandið í Darfur. Og enn stöndum við frammi fyrir harmleik.

Núverandi ástand er óþolandi. Það er kominn tími til aðgerða. Jafnt í Darfur sem um allan heim er þetta mál talið vera prófraun á vald og skilvirkni Öryggisráðsins; samúð þess með fólki í neyð og alvöru þess í baráttunni fyrir friði. Ég hvet ykkur, ég hvet ykkur eins eindreigið og mér er unnt til að standast prófið.

Þakka ykkur kærlega fyrir.