FRAMKVÆMDASTJÓRI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA — ÁVARP Á ALÞJÓÐLEGUM DEGI FRIÐARGÆSLULIÐA, 29. maí 2006

Fáa grunaði hve gríðarlega friðargæsla Sameinuðu þjóðanna ætti eftir að þróast, þegar Öryggisráðið stofnaði fyrstu friðargæslusveitina á þessum degi árið 1948. Þeir dagar eru liðnir þegar léttvopnaðir friðargæsluliðar þrömmuðu fótgangandi á milli vopnahléslína á milli herja fullvalda ríkja.  Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna er sífellt flóknari og margþættari og gegnir ekki aðeins því hlutverki að fylgjast með því að vopnahlé sé virt, heldur einnig því hlutverki að blása nýju lífi í hrunin ríki, oft eftir áratuga ófrið. Bláu hjálmarnir og borgaralegir starfsfélagar þeirra vinna saman að því að halda kosningar, hrinda umbótum á lögreglu og dómskerfi í framkvæmd, efla og vernda mannréttindi, leita að jarðsprengjum, koma á jafnrétti kynjanna, stuðla að sjálfviljugri afvopnun fyrrverandi vígamanna og styðja heimflutning flóttamanna og uppflosnaðs folks.  Lögregla Sameinuðu þjóðanna hefur, einkum síðastliðið ár, gegnt sívaxandi hlutverki við að fylla upp í tómið á milli hersveita Sameinuðu þjóðanna og staðbundinna öryggisstofnana sem ekki hafa getað haldið uppi röð og reglu á spennuþrungnum svæðum þar sem átök hafa geisað.   

Áhætta fylgir þessu ómetanlega starfi. Fleiri létust í þjónustu friðargæslu Sameinuðu þjóðanna árið 2005 en á nokkru ári síðastliðinn áratug. 124 friðargæsluliðar frá 46 löndum létust af völdum ofbeldisverka, sjúkdóma og slysa. Enn hafa 32 fallið það sem af er árinu 2006, þar á meðal 8 hermenn frá Guatemala sem voru drepnir er þeir reyndu að stilla til friðar á átakasvæðum í austurhéruðum Lýðveldisins Kongó. Þar að auki eykst fjöldi þeirra friðargæsluliða sem eru á hættusvæðum til muna og mun halda áfram að gera það. Fleiri en 72 þúsund hermenn og 15 þúsund óbreyttir borgarar starfa nú í 18 friðargæslusveitum undir stjórn Friðargæsludeildar Sameinuðu þjóðanna. Engin fjölþjóðasamtök leggja eins mikið af mörkum við að efla stöðugleika að loknum átökum í heiminum.   

Vaxandi eftirspurn eftir friðargæslu SÞ sýnir aukna tiltrú á hæfni samtakanna til að koma á ró á spennusvæðum og endurreisa stöðugleika. Að sama skapi eykst stuðningur aðildarríkja. Hundrað áttatíu og eitt ríki leggur nú til hermenn, meðal annars í sjötíu og eins ríkja sveit í Súdan, en aldrei hafa eins mörg ríki lagt fram mannskap til fjölþjóðasveitar. Indland, Pakistan og Bangladesh leggja til lang flesta hermenn  eða samtals 40% friðargæsluliða SÞ og hafa að sama skapi orðið fyrir mestu mannfalli. 

Friðargæsla er eitt af kjarnahlutverkum samtakanna. Sífellt fleira starfsfólk gegnir skyldustörfum á hættusvæðum og því er brýnt að afla því meiri sérfræðilegs alþjóðlegs stuðnings. Við erum ákveðin í því að ná því marki með því að koma á umbótum í stjórn og umsjón og með því að fylgja af hörku ítrustu kröfum um góða framkomu og líða hvorki kynferðislega misnotkun né misbeitingu. Við höfum beðið aðildarríkin og þau ríki sem leggja til herlið um slíkt hið sama í þessu mikilvæga máli.  

Stofnun Friðaruppbyggingarnefndarinnar er líka framfaraspor. Nefndin mun stuðla að því að hindra að ríki sökkvi á ný í ófriðarfen með því að reyna stöðugt að finna lausnir á þeim vanda sem steðjar að þegar ófriði lýkur. Slíkt hefur allt of oft gerst og friðargæsluliðar SÞ hafa orðið að snúa aftur vegna þess að friður skaut ekki rótum. 

Á þessum Alþjóðlega degi friðargæsluliða skulum við heiðra óþreytandi kjarkmikla karla og konur sem starfa af fórnfýsi í þágu friðargæslu Sameinuðu þjóðanna. Við skulum minnast þeirra hetja sem týnt hafa lífi í nafni friðar. Og við skulum skuldbinda okkur á ný til að skapa heim sem er laus við ófriðarpláguna.