Maí-júní 2016. Á tuttugu og tveggja ára löngum starfsferli hefur Suðurnesjamaðurinn Birgir Guðbergsson unnið á mörgum af erfiðustu og hættulegustu stöðum í heimi hjá Sameinuðu þjóðunum.
Birgir Guðbergsson, er sannkallaður reynslubolti og hefur þegar starfað í Króatíu, Bosníu, Kosovo, Vestur-Sahara, Líberíu, Malí og nú í Mið-Afríkulýðveldinu. Birgir sem starfar í samgöngugeiranum, er Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í norræna fréttabréfi UNRIC.
„Ég gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar þegar ég svaraði auglýsingu frá írskri ráðningarskrifstofu í DV. Félagi minn hafði rekist á auglýsingun og hvatti mig til að sækja um, þar sem bakgrunnur minn passaði ágætlega við starfslýsinguna. Ég lét inn umsókn án þess að vita að þetta væri starf tengt Sameinuðu þjóðunum, hvað þá að þetta væri á átakasvæði á Balkanskaganum. Ráðningaferlið tók 3-4 mánuði, og í Nóvember 1994 fórum við 14 Íslendingar til Zagreb í Króatíu sem verktakar hjá SÞ. Ég var sá eini af þeim hóp sem ílengdist og varð starfsmaður Sameinuðu þjóðanna milliliðalaust.“
Hvernig var að fara frá friðsælu Íslandi yfir í stríðsátökin á Balkanskaganum 1994?
„Það var mikil breyting á sínum tíma að fara til útlanda að vinna. Internetið var ekki til
staðar og símtöl ekki alltaf möguleg, mitt nánasta fólk á Íslandi heyrði daglegar stríðsfréttir frá Balkanskaganum en heyrði kannski bara vikulega frá mér í mesta lagi.
Að byrja SÞ ferilinn í Friðargæslunni á hörðustu átaksvæðum kallaði á margar áskoranir, engir tveir dagar voru eins og eru reyndar ekki ennþá.
En Sameinuðu þjóðirnar höfðu verið með friðargæslu í tugi ára, þeir kunnu þá alveg að taka á móti nýliðum og koma þeim inní starfið á sem skemstum tíma, einmitt þetta er það sem ég legg áheyrslu á að gera vel þegar nýtt fólk kemur til starfa í fyrsta sinn.“
Hvaða verkefni hefur verið erfiðast hingað til?
„Bosníu verkefnið 1994-1995 var strembið, síbreytilegar óútreiknanlegar aðstæður sem við þurftum að takast á við. Aftur 2003, þegar s.þ. fóru inn í Líberíu eftir 14 ára borgarastríð var ekki mikið val á íbúðarhæfu húsnæði, rennandi vatni og matar úrval- og magn var vandamál, bæði fyrir fólkið almennt í landinu og okkur hin sem komum þangað fyrst af alþjóðastarfsliðinu. Svo hefur gengið á ýmsu í því verkefni sem ég er í núna í Mið Afríku-lýðveldinu, við erum hvergi nærri sjó og landleiðin er ekki auðveld yfirferðar til að koma nauðsynjum á staðinn, en þetta er allt að koma til.“
Hefurðu verið í lífshættu?
„Samstarfsmenn hafa látist við störf, hlutfallið var þó líklega hærra hjá íslensku sjómannastéttinni þegar ég hætti að stunda sjóinn fyrir nærri 30 árum.“
Hvað er jákvæðast við starfið?
„ Það er ánægjulegt að líta til baka og sjá svæði sem s.þ. hafa verið með friðargæslu og hjálparstarf vera í ágætri friðsemd í dag, þar sem núna hvorki er þörf fyrir friðargæslu né hjálparstarfi og vonadi aldrei aftur. Vitandi að maður hafði svolítið með þessar jákvæðu breytingar að gera“.
Er eitthvað sérstakt við að vera Norðurlandabúi í þínu starfi?
„Nei, ekkert frekar, við reynum að vera öll jöfn, Það eru til hæfir starfsmenn í öllum löndum heims.“