78.Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Leiðtogafundur um loftslagsmál. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði leiðtogafund um loftslagsmál sem haldinn er í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar um 30 ríkja voru beðnir að ávarpa þann fund.
Í ávarpinu gerði forsætisráðherra grein fyrir aðgerðum og áherslum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Ísland noti nú þegar endurnýjanlega orku til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Orkuskipti í samgöngum séu hafin og ekki verði gefin út leyfi til olíuleitar innan íslenskrar efnahagslögsögu.
Tvöfölduð framlög
Þá greindi forsætisráðherra frá því að Ísland hyggist tvöfalda framlög sín til Græna loftslagssjóðsins og leggja aukna áherslu á loftslagsaðgerðir í þróunarsamvinnuverkefnum sínum. Forsætisráðherra lauk ávarpi sínu með hvatningu um nauðsyn þess að hraða aðgerðum til að bregðast við loftslagsvandanum.
„Breytingar geta verið erfiðar en við höfum ekki val um annað. Við höfum enn tíma en hann er að renna frá okkur. Viðvaranir fortíðar eru nú orðnar að uggvænlegum staðreyndum. Ef við hröðum ekki loftslagsaðgerðum og ráðumst í kerfisbreytingar verða viðvaranir dagsins í dag að hamförum morgundagsins,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.
Forsætisráðherra tekur síðar í dag þátt í umræðum á sérstökum fundi kvenleiðtoga þar sem rætt verður um leiðir til að hraða aðgerðum til að ná heimsmarkmiði nr. 5 um jafnrétti kynjanna. (heimild: Forsætisráðuneytið)