Filippo Grandi forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) segir að stofnunin sé „algjörlega andsnúin” nýjum dönskum lögum sem fela í sér flutning hælisleitenda til þriðja ríkis.
„Þessi lög geta orðið til þess að hælisleitendur séu fluttir með valdi. Þetta felur í sér að Danmörk afsali sér ábyrgð á því ferli sem felst í umsókn um hæli og vernd bágstaddra flóttamanna,“ segir Grandi í yfirlýsingu.

„Flóttamannahjálpin er algjörlega andsnúin tilraunum til að flytja út eða útvista alþjóðlegum skuldbindingum ríkja um vernd til annara ríkja. Slík viðleitni til að víkja sér undan ábyrgð brýtur í bága við bókstaf og anda Flóttamannasáttmálans frá 1951. Sama gildir um Alþjóðlega flóttamannasamninginn (Global Compact on Refugees ) þar sem ríki heims samþykktu að deila jafnar ábyrgðinni á vernd flóttamanna.”
Raunhæfir valkostir
Nú þegar eru 90% allra flóttamanna í þróunarríkjum eða minnst þróuðu ríkjunum. Þrátt fyrir fátækt hafa þau tekið á sig byrðar og uppfyllt alþjóðlegar lagalegar skuldbindingar og ábyrgð.
Flóttamannahjálpin hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum og lýst anstöðu sinni við tillögur dönsku stjórnarinnar og boðið fram ráðgjöf og bent á raunhæfa valkosti.
„Flóttamannahjálpin mun halda áfram samræðum við Danmörku, sem er og hefur verið mikilvægur samstarfsaðili UNHCR, til þess að finna raunhæfar leiðir. Þeim ber að vera í senn trúverðugar í augum dansks almenning en á sama tíma vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Danmerkur,” segir Grandi í yfirlýsingu sinni.