Alþjóðlegur dagur farandfólks er í dag 18.desember. Fleira fólk býr nú en nokkru sinni fyrr í öðru landi en fæðingarlandi sínum. Margir flytjast landa á milli af fúsum og frjálsum vilja, en aðrir eiga einkis annars úrkosti.
Í tilefni Alþjóðlegs dags farandfólks hvetur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna leiðtoga og þjóðir heims til að blása lífi í Alþjóðlegan sáttmála um málefni farandfólks „svo fólksflutningar verði til góðs fyrir alla hlutaðeigandi.”
Í gjörvallri mannkynssögunni hafa einstaklingar ætíð sýnt hugrekki og gefið erfiðleikum langt nef með því að leita tækifæra og betra lífs utan heimalandsins.
Hnattvæðingin og framfarir í samskiptum og samgöngum hafa orðið til þess að fjöldi þeirra sem geta og vilja hleypa heimdraganum, hefur aukis til muna.
Árið 2019 voru þannig 272 milljónir á faraldsfæti á leiðinni á vit nýs lífs í nýju landi. Þetta er aukning um 51 milljón miðað við árið 2010.
Þetta er í senn uppspretta erfiðleika og tækifæra fyrir samfélög um allan heim. Eitt af því sem hafa ber í huga eru tengslin á milli slíkra fólksflutninga og þróunar. Og farandfólk getur ýtt undir þróun bæði í heimalandi sínu og gistiríki.
„Farandfólk er snar þáttur í samfélaginu og stuðlar að gagnkvæmum skilningi og sjálfbærri þróun jafnt í heimalandi sem gistilandi,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af degi farandfólks.
Áhersla á mannréttindi
Guterres leggur í ávarpinu áherslu á að virðaa þurfi til jafns öll mannréttindi farandfólks.
„Öruggir og reglubundnir fólksflutningar eru í allra þágu. Og forgangsröð einstakra ríkja verður best þjónað með alþjóðlegri samvinnu. Allt farandfólk á tilkall til að njóta jafnrar verndar allra sinna mannréttinda. Þessi grundvallaratriði voru innsigld í Alheims sáttmálanum um örugga og reglbundna fólksflutninga.”
Fólksflutningar landa á milli eru mjög í deiglunni heiminum í dag. Alþjóðlegrar samvinnu og samstilltra aðgerða er þörf enda eru mörg ljón á veginum því þetta er margslungið, ófyrirsjáanlegt vandamál og á stundum ríkir hreinastas neyðarástand.
Á ávarpi sínu minnir Guterres á að farandfólk þurfi oft og tíðum að yfirvinna tröllaukna erfiðleika. Yfirvöld leggi stein í veg þeirra ekki á grundvelli staðreynda heldur ástæðulauss ótta.
„Á þessum alþjóðadegi hvet ég leiðtoga og þjóðir hvarvetna til þess að gæða alheimssáttmálann um fólksflutninga lífi svo að allir njóti góðas af fólksflutningum.”