Finnland tilkynnti í dag að landið myndi hefja á ný fjárhagsstuðning við UNRWA. Þar með hafa fjögur Norðurlandanna snúið við ákvörðunum sínum, en Noregur hætti aldrei stuðningi sínum.
Ville Tavior þróunarmálaráðherra sagði á blaðamannafundi í Helsinki í dag að Sameinuðu þjóðirnar hefðu gefið tryggingar fyrir því að innra starf UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálparinnar, yrði eflt.
Danir hófu einnig greiðslur á ný
Fyrr í vikunni tilkynntu Danir að þeir fylgdu í fótspor Svía og Íslendinga og „affrystu” greiðslur sínar. „Eins og staðan er, er enginn valkostur við UNRWA,” sagði Dan Jørgensen þróunarmálaráðherra.
Norðurlöndin fjögur voru í hópi fimmtán ríkja sem frystu greiðslur sínar til UNRWA eftir að ásakanir á hendur 12 starfsmönnum UNRWA um þátttöku í hryðjuverkunum 7.október komu fram í dagsljósið.
Engar áþreifanlegar sannanir borist
UNRWA hefur hins vegar enn ekki fengið í hendur neinar áþreifanlegar sannanir frá Ísraelum um þátttöku þeirra að sögn Jonathan Fowler samskiptastjóra hjá UNRWA í viðtali við finnska ríkisútvarpið YLE. „Fjárveitendur taka sínar ákvarðanir. Hins vegar ber að hafa í huga að við erum að tala um 12 af 30 þúsund starfsmönnum eða 0.04%.“