Finnland hefur verið valið hamingjusamasta land heims. Árleg hamingjuskýrsla er tekin saman og birt í aðdraganda Alþjóðlega hamingjudagsins 20.mars. Finnar hrepptu hamingju-hnossið fjórða árið í röð. Íslendingar fylgdu í humátt á eftir þeim.
Það var Bútan sem bar fram ályktunina um að Sameinuðu þjóðirnar skyldu halda Alþjóðlegan hamingjudag. Þetta smáríki í Himalajafjöllunum hefur barist fyrir því að hamingja þjóða sé meira virði en auður eins og hann er mældur í þjóðarframleiðslu frá því snemma á áttunda áratugnum. Í Bútan hefur verg hamingja leyst af verga þjóðarframleiðslu af hólmi sem mælikvarði um framfarir.
Í hamingjuskýrslunni (World Happiness Report) eru ríkjum heims raðað upp í goggunarröð þar sem litið er á fjölmargar hliðar lífsins. Auk þjóðarframleiðslu er ýmislegt tekið með í reikninginn sem sú mælistika nær ekki yfir.
Skýrslan byggir á reynslu um þúsund einstaklinga frá hverju ríki sem tekur þátt í skýrslugerðinni. Norðurlandabúar skipa sér í þrjú efstu sætin af þeim 149 sem eru. Sælastir eru Finnar og þar á eftir koma Íslendingar og Danir. Vansælastir eru Simbabwe-búar.
Fólk finnur hamingjuna víða en ganga má út frá því að hana sé oftar að finna í ríkjum þar sem íbúunum finnast þér vera öryggir, frjálsir og skipta máli.