Kynferðislegt ofbeldi.
Rúmlega 370 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa mátt þola nauðgun eða kynferðislega árás fyrir 18 ára aldur samkvæmt nýlegu mati UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins er haldinn 11.október.
Þetta er í fyrsta skipti sem reynt er að leggja mat á fjölda þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi jafnt á heimsvísu sem í einstökum heimshlutum. Afleiðingar slíks, einkum fyrir unglingsstúlkur, geta varað alla æfi.
Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins 2024 er helgaður „Sýn stúlkna á framtíðina.” Sú kynslóð stúlkna, sem nú er að vaxa úr grasi, verður hlutfallslega meira fyrir barðinu á loftslagsbreytingum, átökum og fátækt en fyrri kynslóðir. Jafnframt þurfa þær að horfa upp á afturför þegar mannréttindi og jafnrétti kynjanna eru annars vegar. Of mörgum stúlkum er enn meinað að njóta réttinda sinna, möguleikum þeirra fækkar og framtíðarvonir eru skertar.
Þegar snertingarlaust kynferðislegt ofbeldi er tekið með í reikninginn má gera ráð fyrir að 650 milljónir stúlkna hafi mátt þola kynferðislegt áreiti. Með snertingarleysi er þá átt við áreiti á netinu eða munnlegt áreiti. Þá er hlutfallið orðið ein af hverjum fimm.
Djúpstæð og langvarandi áföll
„Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er blettur á siðferðilegri samvisku okkar,“ segir Catherine Russell forstjóri UNICEF. „Það veldur djúpstæðum og langvarandi áföllum. Gerandinn er oft einstaklingur sem barnið þekkir og treystir og gerist á stöðum, þar sem barnið ætti að vera öruggt.“
Við erfiðar aðstæður, svo sem þar sem stofnanir eru veikar eða fjöldi fólks hefur orðið að flýja pólitískan óstöðugleika eða ofbeldi, eru stúlkur í enn meiri hættu. Þá er tíðni nauðgana og kynferðislegs ofbeldis allt að ein af hverjum fjórum.
Kynferðislegt ofbeldi leiðir til ítrekaðrar misnotkunar
„Börn, sem búa á viðkvæmum stöðum, eru sérstaklega útsett fyrir kynferðislegu ofbeldi,“ segir Russell, „Við verðum vitni að hræðilegu kynferðislegu ofbeldi á átaksvöðum, þar sem nauðganir og kynbundið ofbeldi er notað sem vopn í stríði.“
Kynferðislegt ofbeldi á æskuárum gerist oftast á unglingsaldri, sérstaklega á milli 14 og 17 ár aldurs. Kannanir sýna að börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi, eru liklegri til að sæta ítrekaðri misnotkun. Þýðingarmikið er að grípa inn í markviss á unglingsárum til að brjóta upp vítahring og milda langtímaáhrif slíkra áfalla.
Einstakar áskoranir
19.desember 2011 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun (Resolution 66/170) þess efnis að 11.október skyldi vera Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins til að viðurkenna réttindi stúlkna og þær einstöku áskoranir sem þær glíma við um allan heim.
Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins beinir sjónum að áskorunum stúlkna og leitast við að valdefla þær og stuðla að því að þær njóti mannréttinda sinna.
Sjá einnig hér.