Meira en fimm milljónir einstaklinga um víða veröld hafa sent ríkisstjórnum sínum skýr skilaboð um að grípa verði til afgerandi aðgerða til að binda enda á ofbeldi gegn konum.
Óskarsverðlaunaleikkonan Nicole Kidman afthenti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í New York í gær, rúmlega fimm milljónir undirskrifta undir áskorun UNIFEM “Segið NEI við ofbeldi gegn konum.”
Óhætt er að segja að þátttakan hafi farið fram úr björtustu vonum því meir en fimm sinnum fleiri undirskriftir bárust á netinu.
Nicole Kidman, sérstakur sendiherra UNIFEM afhenti Ban undirskriftirnar í tilefni árlegs baráttudags fyrir upprætingu ofbledis gegn konum sem er í dag, 26. nóvember.
“Konum er misþyrmt á heimilum sínum, þær eru seldar mansali á milli landa og eru fórnarlömb kerfisbundins og víðtæks kynferðislegs ofbeldis í styrjaldarátökum,” sagði Kidman á blaðamannafundi. “Svo lengi sem þriðja hver kona og stúlka er fórnarlamb ofbeldis á ævi sinni, ætti það að vera sameiginlegt verk okkar allra að berjast gegn ofbeldi gegn konum.”
Kidman bætti við að undirskriftirnar ættu að marka “upphaf” þess að “þrýsta á” þá sem taka ákvarðanir að framfylgja lögum, mennta bæði konur og karla og tryggja vernd, heilsugæslu og lagaleg úrræði sem nauðsynleg væru til að uppræta ofbeldi gegn konum.
“Fólk meira að segja í afskekkstustu heimshlutum hefur látið til sín taka, þökk sé Segjum NEI herferðinni. Við munum leitast við að virkja þetta fólk á komandi árum,” sagði Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM.
Þjóðhöfðingjar og ráðherrar sextíu ríkisstjórna og 600 þingmenn frá meir en 70 ríkjum undirrituðu nöfn sín undir yfirlýsinguna.
“Stuðningur hátt setts fólks er mikilvægur,” sagði Alberdi. “Það verður ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða án sterks pólitísks vilja.”