Fyrir nærri fimmtíu árum hélt ég til náms í Minnesota í Bandaríkjunum beinustu leið frá Afríku. Það var margt sem ég þurfti að læra, til dæmis að það væri ekkert asnalegt að ganga um með eyrnaskjól í fimmtán stiga gaddi. Alla ævi hef ég verið að læra af reynslunni. Nú langar mig til að deila með ykkur fimm lærdómum sem ég hef dregið af reynslu minni sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í tíu ár. Ég tel að samfélag þjóðanna þurfi að tileinka sér þessa lærdóma í glímunni við áskoranir tuttugustu og fyrstu aldarinnar.
Í fyrsta lagi berum við öll sameiginlega ábyrgð á öryggi hvers annars. Engin þjóð getur tryggt öryggi sitt gagnvart hættum á borð við útbreiðslu kjarnorkuvopna, loftslagsbreytingum, farsóttum eða árásum hryðjuverkamanna frá griðastöðum í ónýtum ríkjum, með því að sækjast eftir yfirráðum yfir öllum öðrum. Við getum einungis öðlast varanlegt öryggi með því að leitast við að tryggja öryggi hvers annars.
Þessi ábyrgð felur líka í sér sameiginlega ábyrgð á að vernda fólk gegn þjóðarmorði, stríðsglæpum, þjóðernishreinsunum og glæpum gegn mannkyninu. Allar þjóðir samþykktu þetta á Alheimsleiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári. En þegar við lítum til morða, nauðgana og sveltis sem íbúar Darfur mega þola, gerum við okkur grein fyrir því að slíkar kenningar eru orðin tóm ef þeir skirrast við að taka forystuna sem hafa pólitískt- , efnahagslegt- og þegar önnur úrræði duga ekki- , hernaðarlegt vald.
Við berum líka þá ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum að varðveita auðlindir sem tilheyra þeim jafnt sem okkur. Á hverjum degi sem við aðhöfumst lítið eða ekkert til að hindra loftslagsbreytingar, veltum við kostnaðinum yfir á börnin okkur á.
Í öðru lagi berum við öll ábyrgð á velferð hvers annars. Við verðum að minnsta kosti að gefa meðbræðrum okkar tækifæri til að eignast hlut í velmegun okkar.
Í þriðja lagi eru bæði öryggi og velmegun háð því að mannréttindi séu virt og að réttarríki sé við lýði.
Fjölbreytni hefur alla tíð auðgað mannsandann og ólík samfélög hafa lært hvert af öðru. En ef samfélög okkar eiga að búa við frið, verðum við að leggja áherslu á það sem sameinar okkur: að við tilheyrum mannkyninu og að lög verndi mannlega reisn okkar.
Þetta er líka mikilvægt fyrir þróun. Það er mun líklegra að hvort heldur sem er útlendingar eða heimamenn fjárfesti þegar grundvallarréttindi þeirra eru tryggð og þeir vita að þeir geti treyst á sanngjarna málsmeðferð í samræmi við lög. Og það er líklegra að verkefni sem fela í sér raunverulega þróun verði samþykkt ef þeir sem þurfa mest á þróun að halda geta látið til sín heyra.
Ríki verða einnig að fara eftir reglum í innbyrðis samskiptum. Ekkert samfélag neins staðar líður fyrir of mikið réttarríki en mörg líða fyrir skort á því – og það sama gildir um alþjóðasamfélagið. Þessu þurfum við að breyta.
Fjórði lærdómurinn, er sá að ríkisstjórnir eiga að standa öðrum reikningsskap gerða sinna jafnt á alþjóðlegum vettvangi sem heimafyrir. Hvert einasta ríki hlýtur að bera einhvers konar ábyrgð gagnvart öðrum ríkjum ef aðgerðir eins ríkis hafa umtalsverð áhrif á annað ríki.
Eins og staðan er nú, eru veikburða og fátæk ríki auðveldlega dregin til ábyrgðar því þau þurfa á erlendri aðstoð að halda. Stór og valdamikil ríki hafa mest áhrif á önnur ríki en það eru einungis þegnar þess ríkis sem hafa taumhald á því. Af þessum sökum bera íbúar og stofnanir öflugra ríkja sérstaka ábyrgð á því að taka tillit til skoðana og hagsmuna alheimsins. Og jafnframt þarf að taka tillit til sjónarmiða annara en ríkisstjórna. Einstök ríki geta ekki lengur – og gátu kannski aldrei tekist á við áskoranir á heimsvísu hvert í sínu horni. Þau þurfa í sívaxandi mæli að treysta á stuðning aragrúa samtaka fólks sem sameinast í viðleitni til að hugsa um og breyta heiminum.
Hvernig geta ríki staðið hverju öðru reikningsskap gerða sinna? Eingöngu fyrir tilstuðlan milliríkjastofnana. Lokalærdómur minn er að slíkar stofnanir verður að skipuleggja á réttlátan og lýðræðislegan hátt, og að fátæk og veikburða ríki hafi einhvers konar áhrif á framferði henna ríku og sterku.
Þróunarríki ættu að hafa meiri áhrif innan alþjóðlegra fjármálastofnana sem taka ákvarðanir sem varða líf og dauða þjóða þeirra. Samsetning Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna endurspeglar raunveruleika ársins 1945 en ekki nútímans og því ætti að fjölga ríkjum með föstum eða langtíma sætum í ráðinu.
Ekki er síður mikilvægt að öll ríki sem sæti eiga í ráðinu axli þá ábyrgð sem fylgir slíkum forréttindum. Öryggisráðið er ekki tæki til þess að tryggja hagsmuni einstakra ríkja. Ráðið er stjórnarnefnd alþjóðlegs öryggiskerfis okkar.
Bandaríkjamenn líkt og aðrir veraldarbúar hafa aldrei þurft meira á virku alheimskerf en einmitt núna. Og reynslan hefur kennt okkur hvað eftir annað að kerfið virkar ekki þegar Bandaríkin standa með hendur í skauti og virkar best þegar víðsýn forysta er við völd í Bandaríkjunum.
Af þessum sökum bera bandarískir leiðtogar mikla ábyrgð. Bandaríska þjóðin verður að sjá til þess að þeir standi undir henni.
Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Greinin er byggð á ræðu sem hann flutti á Truman forsetasafninu og bókhlöðunni í Independence i Missouri í Bandaríkjunum 11. desember stl.