Fimm forystumenn SÞ undirrita hvatningu um að gengið verði frá nýjum loftslagssáttmála

Fimm háttsettir embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa ritað nöfn sín á undirskriftalista til leiðtoga ríkja heims um að ganga frá samningi “seal the deal” á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember. Þar er stefnt að því að ganga frá nýjum Loftslagssáttmála með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Þau sem bættu nöfnum sínum á listann voru Margaret Chan, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Michel Jarraud, framkvæmdastjóri Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO); Kanayo F. Nwanze, forstjóri Alþjóða sjóðs þróunar í landbúnaði (IFAD); Pascal Lamy, forstjóri Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO); og Francis Gurry, forstjóri Alþjóða höfundarréttar stofnunarinnar.

 
Þau undirrituðu undirskriftalista á netinu sem verður afhentur leiðtogum heims á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Þar er stefnt að því að ljúka sáttmála sem taki við af Kyoto bókuninni, en fyrstu ákvæði hennar renna út 2012.
Í síðustu viku sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að sá niðurskurður á losun gróðurhúsalofttegunda sem leiðtogar 8 helstu iðnríkja heims, samþykktu í síðustu viku væri ekki nóg. 
“Tími frestana og hálfvelgju er liðinn,” sagði Ban. “Nú er þörf á persónulegri forystu oddvita ríkja og ríkisstjórna til að grípa tækifærið og vernda jörðina og íbúa hennar fyrir einni alvarlegustu ógn sem steðjað hefur að mannkyninu.”