Veraldarleiðtogar koma saman í New York 23.september til að sækja leiðtogafund um loftslagsaðgerðir. Einnig eru fjórir aðrir mikilvægir fundir á aðeins einni viku til þess að ræða brýn hnattræn málefni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sækir Loftslagsaðgerðafundinn af Íslands hálfu.
Í septembermánuði ár hvert hittast aðildarríki Sameinuðu þjóðanna á Allsherjarþingi samtakanna til að ræða brýnustu málefni heimsbyggðarinnar. Í ár, auk almennu pólitísku umræðnanna, munu oddvitar ríkja heims taka þátt í leiðtogafundum til þess að efla aðgerðir gegn loftslagsvánni og hraða framgangi sjálfbærrar þróunar. Að baki öllum málefnum sem rædd eru, eru Sjálfbæru þróunarmarkmiðin betur þekkt sem Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun sem veraldarleiðtogar samþykktu árið 2015.
Fundarhrinan hefst á mánudag 23.september með Loftslagsaðgerðafundinum. (Climate Action Summit).
Loftslagsváin
„Alllt alþjóðasamfélagið verður að ráðast til atlögu við loftslagsvána af meiri metnaði og öflugri aðgerðum til að hrinda Parísarsamkomulaginu um loftslagsbreytingar í framkvæmd,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Leiðtogafundur um loftslagsaðgerðir mánudaginn 23.september er vettvangur ríkja, einkageirans og borgaralegs samfélags. Honum er ætlað að vera vettvangur til að kynna lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla viðnám við loftslagsbreytingum og aðlögun.
Guterres bendir á að tryggja beri með sameiginlegu átaki að hitastig jarðar hækki ekki um meira en 1.5 gráður á Celsius. Þar vitnar hann til áreiðanlegustu niðurstaðna vísinda að áliti Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Er hækkuninn miðuð við upphaf iðnbyltingar.
„Við höfum tækifæri næstu 11 ár til að koma í veg fyrir óafturkallanlegar loftslagsbreytingar. Við verðum að minnka losun koltvísýrings um 45% fyrir 2030 og ná kolefnisjanvægi fyrir 2050,“ segir Guterres.
„Af þessum ástæðum hef ég beðið veraldarleiðtoga um að koma saman til loftslagsfundarins með áætlanir en ekki ræður.”
Heimsmarkmiðin
Það verður ekki síður beint kastljósi að sjálfbærri þróun á meðan leiðtogavikan stendur yfir á Allsherjarþinginu. Ekki síst dagana 24.og 25.september á sérstökum leiðtogafundi um Sjálfbæru þróunarmarkmiðin (Sustainable Development Goals Summit) eða svokölluð Heimsmarkmið.
Á fundinum munu oddvitar og aðrir hlutaðeigandi sýna hvaða úrræði þeir hafa til að hraða framkvæmdum við að ná Áætlun 2030 um sjálfbæra þróun, eins og Heimsmarkmiðin heita á nafni diplómata.
Þau eru metnaðarfyllsta áætlun sögunnar um aukna velmegun og vellíðan allra jarðarbúa og vernd umhverfisins. Aðgerðaáætlunin var samþykkt af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna fyrir fimm árum. Nú er rétt rúmur áratugur til stefnu til 2030.
Eitt brýnasta verkefnið er að safna nægu fé til þess að hrinda áætluninni í framkvæmd. Enn vantar fé til að hrinda Heimsmarkmiðunum í framkvæmd. 26.september verður haldinn fundur hátt settra aðila úr röðum ríkisstjórna og fjármálageirans (High-level Dialogue on Financing for Development). Þar er ætlunin að fylkja liði til þess afla fjár og mynda þau bandalög sem nauðsynleg eru til þess að hraða framkvæmdum.
Að auki verður haldinn fyrsti fundur háttsettra fullra um heilsugæslu í þágu allra (High-level Meeting on Universal Health Coverage). Málið verður til umfjöllunar 23.september. Er markmiðið að ýta úr vör nýju átaki til að tryggja öllum aðgang að heilsugæslu á viðráðanlegu verði.
Samoa
Að lokum munu háttsettir fulltrúar koma saman til að ræða svokallaðan Samoa vegvísi (the Samoa Pathway). Á fundinum sem er haldinn 27.september verða til umræðu málefni Lítilla ey-þróunarríkja. Þau eru á meðal þeirra ríkja sem höllustum fæti standa í heiminum. Fyrir fimm árum var samþykkt metnaðarfull áætlun, Samoa vegvísirinn, til stuðnings sjálfbærri þróun á þessum smáu þróunar-eyríkjum. Farið verður yfir árangurinn til þessa þegar hálfnaður er sá tími sem ætlaður er til að ná markmiðunum. Við ramman reip er að draga þar sem eru skaðvænleg áhrif loftslagsbreytinga og aðrar áskoranir.
Samhliða þessari fundahrinu eru svo árlegar almennar umræður aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sem hefjast þriðjudaginn 24.september. Að venju ávarpar fulltrúi Brasilíu Allsherjarþingið fyrstur leiðtoga. Á eftir kemur fulltrúi gistiríkisins Bandaríkjanna, að þessu sinni Donald Trump forseti.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun ávarpa Allsherjarþingið í umræðunum síðdegis föstudaginn 27.september að staðartíma, en að kvöldi að íslenskum tíma.
Sjá einnig:
Loftslagsaðgerðafundurinn – yfirlit.
Leiðtogafundurinn um Sjálfbær þróunarmarkmið –yfirlit.
Umræður háttsettra fulltrúa um fjármögnun þróunar –yfirlit.
Umræður háttsettra fulltrúa um almenna heilsugæslu –yfirlit.