António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt Evrópusambandið til að taka forystu í þeim alþjóðlegu málefnum þar sem „tilvist mannkynsins er ógnað.”
Guterres var gestur í upphafi leiðtogafundar Evrópusambandsins í Brussel í dag. Á fundi hans og Charles Michel forseta leiðtogaráðsins með blaðamönnum sagði hann að einungis ein leið væri fær til þess að skapa fjölpóla-heim.
„Það er með styrkri forystu öflugs og sameinaðs Evrópusambands. Við hvetjum Evrópusambandið ákaft til að leika mjög virkt hlutverk varðandi helstu málefni samtímans. Þar er einkum átt við þau málefni sem snúast um tilvist heimsins sem ógnað er : loftslagsbreytingar. stjórnlausa þróun gervigreindar og þann djúpa ójöfnuði sem við blasir.”
Friður í Úkraínu
Hann þakkaði Michel fyrir framúrskarandi gott samstarf Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna og öflugs stuðnings ESB við Sameinuðu þjóðirnar og milliríkjasamskipti. Hann sagði að grundvallarsjónarmiðin væru skýr: Stofnsáttamáli Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalög, helgi yfirráðasvæða ríkja og alþjóðleg mannúðarlög.
„Og af þessum sökum teljum við þýðingarmikið að koma á friði í Úkraínu; friði sem er í samræmi við þessi sjónarmið. Það þýðir frið sem er í samræmi við Stofnskrána, alþjóðalög, yfirráð Úkraínu yfir landi sínu og fullveldi landsins.“
Forðast ber tvöfalt siðgæði
Af sömu ástæðum, sagði aðalframkvæmdastjórinn, hvatti hann til vopnahlés á Gasasvæðinu.
„Grundvallarsjónarmið alþjóðlegra mannnúðarlaga er vernd óbreyttra borgara. Okkur ber að halda fast í grundvallarsjónarmið, hvort heldur sem er í Úkraínu eða Gasa án tvöfalds siðgæðis. Á sama tíma verðum við að ýta veröldinni hægt og bítandi í átt til einhvers konar fjölskautun með öflugum fjölþjóðlegum stofnunum.“