Þrjátíu ár eru liðin frá því veraldarleiðtogar komu saman og undirrituðu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna -eða Barnasáttamálann.
Í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna unnu 8. bekkingar í Kópavogi umhverfis- og loftslagsverkefnið Pláneta A.
Kjallaragrein
Sigurjón Þór Atlason, Matthildur Sigurjónsdóttir og Telma Ósk Bergþórsdótt voru í þeim hópi og segjast í grein sem birt er á visir.is í dag hafa lært ýmislegt gagnlegt.
„Okkur fannst mjög gaman að taka þátt í verkefninu og lærðum margt af því, til dæmis að allt sem við gerum skiptir máli og við getum öll haft áhrif. Við lærðum líka hvað það er mikilvægt að við förum vel með Plánetu A, því hún er alveg stórkostleg – og það er engin B!,” segja þremenningarnir í 8.bekk í Salaskóla í Kópavogi.
Að baki Barnasáttmálanum liggur sú grundvallarhugmynd að barn sé ekki eign foreldra sinn sem taki ákvarðanir fyrir það að eigin geðþótta eða fullorðin manneskja í þjálfun. Þvert á móti gerir sáttmálinn ráð fyrir að barn sé einstaklingur sem njóti eigin réttinda. Í sáttmálanum er bent á að barnæska sé aðskilin frá fullorðinsaldri og er miðað við 18 ára aldur. Á þeim tíma njóti börnin verndar, fái að stækka, leika, læra, þroskast og blómgast við fulla reisn.
Uppspretta lagasetningar
Enginn sáttmáli um mannréttindi hefur verið staðfestur jafn víða. Hann hefur verið uppspretta lagasetningar og stefnumörkunar og fjárfestinga sem miða að því að börn njóti þeirrar heilsugæslu og næringar sem þau þurfa til að lifa og þroskast auk verndar frá ofbeldi og misnotkun. Sáttmálinn hefur einnig tryggt að börn hafi rödd og þátttökurétt í samfélögum sínum.
Í dag alþjóðadagur barna sem haldinn hefur verið frá því 1954. Dagurinn í ár nýtur sérstöðu því nú eru þrír áratugir frá því Barnasáttmálinn var samþykktur. Afmælið er tilefni til að fagna en líka til að krefjast aðgerða. Börnin segja okkur hátt og snjallt að það sé tími til kominn að öll börn njóti allra réttinda sinn.