79.Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hófst um miðjan september samkvæmt venju, hið 79. í röðinni. Hápunktur þess eru almennar umræður þjóðarleiðtoga, sem hefjast 24.september og standa yfir í viku. En hvað felst í þeim?
Hvernig fara almennu umræðurnar fram?
Almennu umræðurnar eru svipaðar og eldhúsdagsumræður þjóðþinga. Munurinn er sá að það eru ekki innlendir stjórnmálaflokkar heldur hundrað níutíu og þrjú aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, sem tefla fram oddivitum sínum. Ýmist eru það þjóðarleiðtogar, oddvitar ríkisstjórna, utanríkisráðherrar eða í forföllum þeirra sendiherrar sem ávarpa þingið.
Oftast eru þetta fyrstu allsherjar umræður hvers nýs þing. Þetta eru yfirleitt einu umræður sem veraldarleiðtogar taka þátt í. Undantekningin er þó sú að stundum eru leiðtogafundir haldnir samtímis, svo sem Leiðtogafundurinn um framtíðina að þessu sinni.
Eru þetta umræður?
Eiginlega ekki. Almennu umræðurnar eru tækifæri fyrir öll aðildarríkin til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á hinum fróma vettvangi fundarsalar Allsherjarþingsins. Hins vegar eru ekki umræður eða andsvör leyfð eftir neinar ræður. Andsvör eru þó leyfð samkvæmt fundarsköpum við lok hvers dags.
Þema umræðunnar að þessu sinni er Vinnum saman að því að efla frið, sjálfbæra þróun og mannlega reisn í þágu núverandi og komandi kynslóða. Margir ræðumanna leggja út af þessu eða nefna þemað en þeim ber engin skylda til þess.
Hver talar og hvenær?
Eftir að fundur er settur flytur aðalframkvæmdastjórinn yfirlýsingu og á eftir honum talar forseti Allsherjarþingsins.
Sú venja hefur skapist allt frá 10.Allsherjarþinginu 1955 að Brasilía tali fyrst ríkja í almennu umræðunum. Að sögn prótokoldeildar Sameinuðu þjóðanna voru aðildarríkin ófús á upphafsárum samtkanna að vera fyrst á mælendaskrá en Brasilíumenn voru óhræddir við að ríða á vaðið. Smám saman varð þetta að venju og sömuleiðis að gistiríkið Bandaríkin fylgi í kjölfarið.
Aðildarríkjunum er síðan raðað eftir heimshlutum og því hve háttsettir fulltrúar þeirra eru, og tillit tekið til sérstakra óska eftir föngum.
Venjan er sú að utanríkisráðherra tali fyrir hönd Íslands og er því fremur seint á mælendaskrá eða laugardaginn 28.september.
Hnútukast og málalengingar
Óskað er eftir að hver ræðumaður haldi sig innan fimmtán mínútna í ræðustól. Látið er vita þegar stundarfjórðungur er liðinn, en ræðumenn eru ekki truflaðir eða stöðvaðir.
Óskað er eftir er lykilatriðið hér því flestir ef ekki allir þjóðarleiðtogar tala lengur. Fidel Castro leiðtogi Kúbu á metið en hann talaði nærri í fjóra og hálfa klukkustund. Þrátt fyrir það hóf hann mál sitt á að segja að hann „ætlaði eftir föngum að stilla máli sínu í hóf.”
Margar aðrar ræður hafa orðið sögufrægar.
Má nefna að Hugo Chávez fosreti Venesúela kallaði George W. Bush „djöfulinn” í ræðu sinni 2006.
Og Donald Trump forseti Bandaríkjanna hótaði að „leggja Norður Kóreu í eyði“ 2017 og kallaði leiðtoga landsins Kim Jon Un „Rocket Man.“ Vísaði hann þar til eldlaugatilrauna landsins og kjarnorkuvopnaeignar og samnefnds lags Eltons John.
Hamar Þórs eða Thors
Íslendingar gáfu Sameinuðu þjóðunum fundarhamar Allsherjarþingsins árið 1952. Var hann nefndur í höfuðið á gefandanum Thor Thors sendiherra og fastafulltrúa um árabil. Farið er að fenna í sporinn og oft er hann kenndur við þrumuguðinn Þór.
Hamarinn var notaður til að þagga niður í Nikita Khrústsjov Sovétleiðtoga sem svaraði í sömu mynt; reif sig úr öðrum skónum og barði honum í ræðupúltið.
Mikið írafár varð á þinginu og Frederick Boland forseti Allsherjarþingsins barði af slíkum krafti í borð sitt til að stilla til friðar á þinginu að fundarhamarinn brotnaði.
Íslendingar útveguðu eftirlíkingu af hamrinum hið snarasta. Dugaði hún í hálfan fimmta áratug en þá týndist eftirlíkingin.
Enn á ný var Íslendingum falið að útvega fundarhamar og var listakonan Sigríður Kristjánsdóttir beðin um að hafa endingargildi í huga.
Hvernig er hægt að fylgjast með umræðunum?
Hægt er að horfa á umræðurnar í beinni útsendingu á vefsjónvarpi Sameinuðu þjóðanna (UN Web TV).
Nálgast má allar ræður eftir að þær hafa verið fluttar hér.
Þá er hægt að horfa á margar ræður frá fyrri Allsherjarþinginum hér.
Dagskrá og mælendaskrá er hér.