Vesturbakki Jórdanar. UNICEF. Alls hafa 143 palestínsk börn verið drepin á Vesturbakka Jórdanar frá því átök blossuðu upp á milli Ísraela og Palestínumanna í október á síðasta ári.
Þetta er 250% aukning miðað við níu mánuði þar á undan, en þá var 41 barn drepið. Tvö ísraelsk börn hafa verið drepin á Vesturbakkanum á sama tíma í ofbeldi sem rekja má til átakanna frá október 2023.
Þessu til viðbótar hafa rúmlega 440 palestínsk börn særst af völdum kúlna. Þessar tölur vekja áleitnar spurningar um ónauðsynlega og óhóflega notkun skotvopna gegn þeim sem minnst mega sín.
Börn skotin á götum úti
„Um langt árabil hafa börn á Vesturbakka Jórdanar, þar á meðal í Austur-Jerúsalem, mátt þola skelfilegt ofbeldi,“ segir Catherine Russell forstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Ástandið þar hefur versnað umtalsvert samfara átökunum á Gasasvæðinu. Við heyrum ítrekað að palestínsk börn séu handtekin á leið í skólann eða skotin á götum úti. Binda verður enda á þetta ofbeldi þegar í stað.“
Aukin spenna á þessu svæði hefur einnig slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu þúsunda barna og fjölskyldna, sem búa við stöðugan ótta um líf sitt. Börn þora vart úr húsi til að ganga um nágrennið eða fara í skóla.
Slæmt ástand einnig fyrir 7.október
Mikil spenna var raunar áður en hryðjuverkaárásin var gerð 7.október 2023. Þá var mesta ofbeldishrina sem dæmi voru um í tuttugu ár, og 41 palestínskt og 6 ísraelsk börn drepin á fyrstu níu mánuðum 2023.
Ekki má gleyma að mklu færri börn hafa látist í ofbeldisverkum á Vesturbakkanum en á Gasasvæðinu. Tala barna sem látist hafa í árásum Ísraels á Gasa er talin nálgast 15 þúsund.