Tuttugu þúsund manns neyðast til að flýja heimili sín í Súdan á hverjum einasta degi, helmingurinn börn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM).
Átök í Súdan hófust fyrir ári; 15.apríl 2023. 12 þúsund manns hafa látið lífið og og hvergi í heiminum hafa jafnmargir flosnað upp eða 8.5 milljónir.
Boðað hefur verið til fundar í dag í París með helstu hagsmunaaðilum í Súdan; nágrannaríkjum og mannnúðarsamtökum sem þar starfa.
Mannúðarhamfarir
Samkvæmt skýrslu IOM eru 53% sem lent hafa á vergangi börn undir 18 ára aldri. Margir þeirra 8.5 milljóna sem flúið hafa að heiman, voru þegar á flótta undan átökum annars staðar
„Súdan er á góðri leið með að verða einar mestu mannúðarhamfarir í heiminum síðustu áratugi,” segir Amy Pope forstjóri IOM og bendir á að ástandið hafi skapað þrýsting á allan heimshlutann. „Milljónir eru á flótta, hungraðir og berskjaldaðir gagnvart hvers konar misbeitingu og áreiti.“
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna flutti ávarp sem flutt var af myndbandi á ráðstefnunni í París.
“Súdanska þjóðin hefur mátt þola ógurlegar þjáningar í þessum átökum,” sagði Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna á ráðstefnunni í París. Hann benti á að átökin hafi ekki síst falist í handahófskenndum árásum á þéttbýli. Árásir hafa mótast af hagtri á öðrum ættbálkum og kynþáttum, börn hafi verið þvinguð til herþjónustu og kynferðislegu ofbeldi hafi miskunnarlaust verið beitt.
Helmingur þarf mannúðaraðstoð
Ofan á átökin og beinar afleiðingar þeirra bætist að farsóttir hafa brotist út, þar á meðal kólera. Allt í allt er talið að rétt tæpar tuttugu og fimm milljónir eða um helmingur fimmtíu og einnar milljóna Súdanbúa þurfi á mannúðaraðstoð að halda.
Þrátt fyrir þetta hamfaraástand hefur aðeins tekist að fjármagna 7% fjárþarfarinnar við hjálparstarf að mati Sameinuðu þjóðanna. Áætlun um viðbrögð við flóttamannavandanum í Súdan og nágrannaríkjum þess gerði ráð fyrir 1.4 milljarða dala framlögum til að veita 2.7 milljónum manna lífsnauðsynlega aðstoð og vernd.
Frakkland, Þýskaland og Evrópusambandið skipulögðu ráðstefnuna í París á fyrsta afmæli stríðsins sem Sameinuðu þjóðirnar telja „einar alvarlegustu mannúðarhamfarir á síðari árum.”
Sjá nánar um baksvið ástandsins í Súdan hér.