Danmörk og Costa Rica hafa tekið forystu í nýju bandalagi um að binda enda á nýja leit og vinnslu olíu og gass. Grænland og Svíþjóð eru einnig á meðal kjarna-félaga í bandalaginu sem ber heitið Bandalag handan olíu og gass (Beyond Oil & Gas Alliance (BOGA). Tilkynnt var um stofnun bandalagsins á COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Frakkland, Írland, Quebec og Wales eru einnig á meðal kjarna-félaga. Kalifornía, Nýja sjáland og Portúgal eru aukaaðilar og Ítalía „vinur“ bandalagsins.
„Niðurstöður vísindanna eru ótvíræðar. Tíma jarðefnaeldsneytis verður að ljúka,“ sagði Dan Jørgensen loftslagsráðherra Danmerkur. „Þess vegna hefur Danmörk ákveðið hvenær olíu og gasframleiðslu lýkur. Og þess vegna erum við að fylkja liði í þessu bandalagi ríkja sem eru reiðubúin að stíga þetta skref. BOGA er ætlað að nýta skriðþunga til þess að ríki bindi smám saman enda á vinnslu olíu og gass og skjóti stoðum undir hagkerfi hreinnar orku.“
Fyrsta bandalagið
BOGA er fyrsta bandalag sinnar tegundar, þar sem ríkisstjórnir taka höndum saman um að ákveða lokadag olíu og gasleitar. Jafnframt skal leitast við að olíu- og gasframleiðsla sé í samræmi við markmið Parísarsamningsins um viðnám við loftslagsbreytingum.
Costa Rica og Danmerk eru sameiginlega í forsæti BOGA. Stofnfélagar hafa undirritað BOGA yfirlýsinguna þar sem þeir heita því að styðja félagslega réttláta og sanngjarna aðlögun olíu- og gasframleiðslu að Parísarsamningnum.
„Nýting jarðefnaeldsneytis ber að vera neðanmálsgrein í sögunni,“ segir Per Bolund umhverfis- og loftslagsráðherra Svíþjóðar. „Við getum ekki haldið áfram olíu- og gasvinnslu á meðan loftslagshamfarir herja á heiminn.“
Auk þjóðríkja eru Grænland og Quebec-fylki í Kanada kjarna-félagar og Kaliforníu á aukaaðild.
Grænland er kjarna-félagi
„Loftslagsbreytingar eru að gerast í okkar heimahögum og breytingarnar eru áþreifanlegar,“ segir Kalistat Lund, ráðherra orku- og umhverfismála Grænlands. „ BOGA frumkvæðið er í augum Grænlands þýðingarmikið skref í þá átt að setja endurnýjanlega orku í forgan í stað þess að nota orkugjafa sem eru að skapa þann vanda sem við er að glíma.“
Aðild að BOGA er í nokkrum stigum. Kjarna-félagar skuldbinda sig til að hætta leyfisveitingum til olíu- og gasleitar og setja sér lokadag í tenglsum við ákvæði Parísarsamningsins um lok olíu- og gasleitar og nýtingar. Aukaaðild felur í sér skuldbidingu um að minnka olíu- og gasvinnslu, endurskoða til dæmis niðurgreiðslur eða hætta opinberum fjárstuðningi við olíu- og gasleit og vinnslu erlendis.