A-Ö Efnisyfirlit

COVID-19 er mesta þolraun í sögu Sameinuðu þjóðanna

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kynnti í gær nýja áætlun til að takast á við félagsleg- og efnahagsleg áhrif COVID-19 á heimsvísu.

António Guterres sagði á blaðamannafundi í New York að það skipti sköpum að þróuð ríki kæmu nú þegar til hjálpar minna þróuðum ríkjum til að efla heilbrigðiskerfi þeirra og viðbragðshæfni þeirra til að stöðva útbreiðslu kórónaveirunnar. Hann tilkynnti stofnun alþjóðlegs COVID-19 sjóðs til að styðja við bakið á lág- og meðaltekjuríkjum.

„Annars munum við standa frammi fyrir þeirri martröð að sjúkdómurinn breiðist út eins og eldur um suðurhluta heimsins og milljónir manna látið lífið, auk þess sem hætta væri á að sjúkdómurinn myndi skjóta upp kollinum að nýju þar sem hann hefði verið brotinn á bak aftur.“

Í nýrri skýrslu hvatti aðalframkvæmdastjórinn alla til að snúa bökum saman tl að takast á við áhrifn og milda áhrifin á íbúa heimsins.

„COVID-19 er mesta þolraun sem við höfum staðið andspænis frá stofnun Sameinuðu þjóðanna,” sagði Guterres.

„Þessar mannlegu hamfarir krefjast samstilltra, ákveðinna og skapandi aðgerða af hálfu helstu hagkerfa heims og eins mikillar fjárhagslegrar og tæknilegrar aðstoðar og mögulegt við fátækasta og berskjaldaðasta fólk og ríki heims.”

Skýrslan er birt eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsti yfir að samdráttur væri í efnahagslífi heimins jafn alvarlegur eða verri en 2009. Í skýrslunni er hvatt til fjölþjóðlegra, umfangsmikilla, samstilltra og heildstæðra viðbragða að andvirði að minnsta kosti 10% af þjóðarframleiðslu heimsins.

Fjárþörf sjóðsins er talin vera 1 milljarður Bandaríkjadala fyrstu níu mánuðina.

„Höfum hugfast að við erum aðeins jafn sterk og veikasti hlekkur í heilbrigðiskerfum heims í innbyrðis tengdum heimi,“ sagði aðalaframkvæmdastjórinn.

Skýrslan um félagsleg- og efnahagsleg áhrif COVID-19: www.un.org/sites/un2.un.org/files/sg_report_socio-economic_impact_of_covid19.pdf

Fréttir

Alþjóðlegi kvennadagurinn 2020: við erum #JafnréttisKynslóðin