COVID-19 tilfellum fjölgaði í Evrópu í fyrsta skipti í marga mánuði, segir Hans Kluge forstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.
Á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í morgun lagði Kluge áherslu á stafrænar lausnar í baráttunni við COVID-19 faraldurinn.
Hlutfallslega minnkar hlutfall sýktra í Evrópu af heildarfjölda í heiminum. 20 þúsund tilfelli greinast þó daglega og 700 látast á hverjum degi.
Evrópuskrifstofa WHO nær jafnt til Vestur og austur Evrópu sem fjölmargra fyrrverandi lýðvelda Sovétríkjanna.
2.5 milljónir tilfella hafa greinst á þessu svæði. 9 milljónir manna hafa greinst með COVID-19 í heiminum og fleiri en 400 þúsund hafa látist. Heimsfaraldurinn fer vaxandi í heiminum og voru flest ný tilfelli nokkru sinni tilkynnt síðastliðinn sunnudag eða 183.200 á 24 tímum.
„Ég hef varað við því í margar vikur að faraldurinn kunni að vaxa á ný eftir því sem ríki slaka á klónni. Þetta er orðið staðreynd í mörgum Evrópuríkjum,“ varaði Kluge við.
Aukning í 30 ríkjum
„Í 30 ríkjum hefur tilfellum fjölgað á síðustu tveimur vikum. Í 11 af þessum ríkjum hefur smitum fjölgað það hratt að ef ekki verður að gert munu heilbrigðiskerfi kikna undan álaginu enn einu sinni í Evrópu,“ sagði Kluge.
Hann sagði að hins vegar væru góðar fréttir frá ríkjum á borð við Pólland, Þýskaland, Spán og Ísrael þar sem hratt hefði verið brugðist við þegar COVID-19 blossaði upp í skólum, kolanámum og við matvælaframleiðslu á síðustu vikum.
„Þetta eru góðar fréttir, bravó fyrir yfirvöldum. Þá hafa heilbrigðisráðuneyti skýrt okkur frá breyttri hegðu almennings, þar á meðal að virða bil á milli fólks og nota andlitsgrímur. Bravó, almenningur!“
Að vernda gögn og einkalíf

WHO telur að stafræn tækni hafi mikilvægu hlutverki að gegna ekki síst í því að rekja smit.
Kluge taldi upp fjölmörg ríki svo sem Austurríki, Georgíu og Norður-Makedóníu sem hefðu þróað og notað snjallforrit til rakninga – en nefndi þó ekki Ísland. Að auki væri von á því að Andorra, Finnland, Írlang og Portúgal bættust í hópin auk þess sem Frakkland, Ítalía og Svíþjóð væru að gera áhugverða hluti.
Hann lagði áherslu á að árangur við notkun stafrænnar tækni byggði á trausti.
„Nota verður stafrænar heilbrigðis-lausnir af varkárni og visku í samráði við almenning og sjuklinga,“ sagði forstjóri WHO i Evrópu.
„Þetta snýst allt um traust. Réttinn til einkalífs og öryggis verður að hafa í huga við hönnun slíkra lausna.“