Loftslagsbreytingar. COP29.
Mannkynið upplifir nú fordæmalausa hlýnun jarðar. Nú þegar þykir ljóst að 2024 verði heitasta ár frá því mælingar hófust og verði hlýrri en fyrra metárið 2023. Þetta kemur fram í nýjum gögnum sem Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) hefur birt í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP29 í Bakú í Aserbædjan.
Gögn WMO spanna janúar til september. „Alþjóða veðurfræðistofnunin og samstarfsaðilar hennar, geta nú þegar, nærri tveimur mánuðum fyrir árslok, sagt fyrir um að árið 2024 verði það heitasta sem dæmi eru um. Mannkynið er að brenna plánetuna og við gjöldum fyrir það,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ungt fólk í fararbroddi baráttunnar
Guterres leggur þunga áherslu á þýðingarmikið hlutverk ungs fólks í ávarpi til 19.Æskulýðsráðstefnunnar um loftslagsbreytingar.
„Ungu fólki ber aldrei að vanmeta afl sitt,“ sagði Guterres. „Þið eruð ekki aðeins að kalla eftir breytingum í samfélögum ykkar, á samfélagsmiðlum, í skólunum og á götum úti , heldur eru þið aflvakar breytinga.“
Október 2024 var næstheitasti október sögunnar á eftir október á síðasta ári að sögn Copernicus, Loftlagsþjónustu Evrópusambandsins. Að mati hennar er líklegt að 2024 verði fyrsta ár, sem mælist meir en 1.5 gráðu heitari en var fyrir iðnbyltingu. Markmið Parísarsamningsins um viðnám við loftslagsbreytingum var að halda hlýnuninni innnan þess marks.
Þessi þróun helst í hendur við sífellt alvarlegi hamfarir af völdum hlýnandi loftslags. Frá 2020 og til miðs árs 2024 voru atvik tengd hlýnun algengustu veðurhamfarir eða 57% af heild í heiminum.
Metnaðarfull markmið fyrir COP29
Nú þegar leiðtogar ríkja eru á leið til COP29 í Bakú er þrýst á þá á ýmsum sviðum. Guterres aðalframkvæmdastjóri leggur áherslu á að nýrra landsmarkmiða sé þörf til að halda hlýnun jarðar innan 1.5 gráðu.
„Við verðum í sameiningu að þrýsta á leiðtogana til að skila árangri,“ sagði Guterres. „Höldum áfram baráttunni fyrir þá framtíð sem þið eigið skilið og þá plánetu sem mannkynið þarfnast,“ sagði hann í ávarpi til unga fólksins.