Loftslagsmál. COP29.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að enn væri ákveðin ástæða til bjartsýni í loftslagsmálum, þótt dökk ský hrönnuðust upp við sjóndeilarhringinn, þegar hann flutti opnunarræðu á COP29, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Á síðustu loftslagsráðstefnu, COP28, hefði verið ákveðið að snúa baki við jarðnefnaeldsneyti og aðlaga landsmarkmið í loftslagsmálum að 1.5 gráðu markmiðinu. Þar er átt við að halda hlýnun jarðar innan við 1.5 gráðu á Celsius miðað við upphaf iðnbyltingar. Hann sagði að nú væri tími til kominn að „skila árangri”.
„Vísindamenn, baráttufólk og ungmenni krefjast breytinga. Á þau ber að hlusta, ekki þagga niður í þeim,“ sagði Guterres við opnun loftslagsráðstefnunnar í Bakú í Aserbædjan.
„Á síðasta ári voru fjárfestingar í grænni og endurnýjanlegri orku meiri en í jarðefnaeldsneyti í fyrsta skipti. Og næstum alls staðar eru sólar- og vindorka ódýrasta uppspretta rafmagns. Hreina orku-byltingin er komin. Enginn hópur, engin atvinnugrein og engin ríkisstjórn getur stöðvað hana,“ sagði Guterres.
Loftslagsmál: Tifandi klukka
Guterres sagði að það væri þýðingarmikið að halda hlýnun jarðar innan við 1.5 gráðu á Celsius.
„Við heyrum klukkuna tifa. Við erum stödd í síðustu niðurtalningu í átt að 1.5 gráðu markinu. Og tíminn er okkur ekki hliðhollur. Met eru sífellt slegin, heitasti dagur sögunnar, heitasti mánuðurinnn og þetta ár er nánast örugglega heitasta ár sögunnar.”
Hann minnti ráðstefnugesti á veðurhamfarir síðustu mánaða og þá staðreynd að „ekkert ríki er undanskilið.”
„Þetta er saga óréttlætis. Hinir ríku hafa skapað þetta vandamál en hinir fátækustu gjalda það hæsta verði. Oxfam hefur sýnt fram á að ríkustu milljarðarmæringarnir valda meiri losun kolefnis á hálfri annari klukkustund en meðalmaðurinn á allri æfi sinni.”
Þrjú meginatriði
Að mati aðalframkvæmdastjórans ber COP29 að ná árangri á þremur sviðum
Í fyrsta lagi að tryggja að jörðin hlýni ekki meir en sem nemur 1.5 gráðu á Celsius. Til þess þarf að minnka losun koltvísýrings í heiminum um 9% á ári.
Í öðru lagi ber COP29 að gera meira til að vernda íbúa jarðar frá skakkaföllum af völdum loftslagshamfara.
„Nú er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að staðið sé við fjárhagsleg fyrirheit. Þróuðum ríkjum ber að girða sig í brók til að ná því takmarkið að tvöfalda framlög til loftslags-aðlögunar, svo þau nemi að minnsta kosti 40 milljörðum dala á ári fyrir 2025,“ sagði Guterres.
Þriðja atriðið eru fjármál Á síðasta ári voru fjárfestingar í heiminum fyrir utan þróuð ríki og Kína aðeins 15% allra fjárfesinga í hreinni orku. „COP29 verður að rífa niður múra loftslags-fjárfestinga,“ sagði Guterres. „Þróunarríki mega ekki halda frá Bakú tómhent. Samkomulag verður að nást og ég er bjartsýnn á að það takist.”