COP29:  Guterres segir að byggja megi á niðurstöðunni

COP29 í Bakú.
COP29 í Bakú. UNFCCC/Kiara Worth

Auðug ríki hétu því að verja að minnsta kosti 300 milljörðum Bandaríkjadala árlega til loftslagsmála í lokayfirlýsingu COP29, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Henni lauk í Bakú snemma á sunnudagsmorgun eftir langar og strangar viðræður um lokayfirlýsingu. Þróunarríki höfðu vonast eftir einnar trilljónar dala árlegum framlögum og sögðu niðurstöðuna „móðgandi”.

Eftir tveggja vikna viðræður komust samningamenn á 29.Loftslagsráðstefnunni (COP29) að samkomulagi um að stefnt skuli að „að minnsta kosti 1.3 trilljóna dala aðstoð vegna loftslagsmála fyrir 2035.”

Kolefnismarkaður í augsýn

Jafnframt voru samþykktar reglur fyrir alþjóðlegan kolefnismarkað með stuðningi Sameinuðu þjóðanna. Þessum markaði er ætlað að greiða fyrir viðskiptum með kolefnisinnistæður, og hvetja ríki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fjárfesta í loftslagsvænum verkefnum.

COP29 er haldin í Bakú í Aserbædjan
COP29 er haldin í Bakú í Aserbædjan. Mynd: UN Climate Change/Habib Samadov

 Þetta voru á meðal helstu samþykkta COP29, en þar var einnig ákveðiÐ:

Nýju fyrirheitin um fjárstuðning koma í stað loforða um 100 milljarða dala árleg framlög til þróunarríkja, sem renna út 2025.

Síðustu daga viðræðna á COP29 gekk hvorki né rak og tókust þróuð- og þróunarríki á. Sumir fulltrúar vanþróaðra ríkja og bandalags lítilla eyríkja (AOIS) gengu á dyr.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi með ungu fólki á COP29
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi með ungu fólki á COP29. Mynd. © UN Office for Partnerships

Hefði kosið meiri metnað

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að þótt samkomulagið á COP29 væri nauðsynlegt til að viðhalda vonum um að takmarka hlýnun jarðar við 1.5 gráðu á Celsius, væri það einnig vonbrigði. „Ég hefði vonast eftir metnaðarfyllri niðurstöðu bæði um fjármögnun og mildun afleiðinga loftslagsbreytinga til þess að takast á við þær miklu áskoranir sem við er að glíma.”

Hann sagði að engu að síður mætti byggja á niðurstöðunni. „Því ber að framfylgja að fullu og virða tímasetningar. “