COP-26: Sjáumst að ári í Egyptalandi

COP26
Mynd: Unsplash/Patrick Federi

Nærri 200 ríki komust að samkomulagi seint á laugardagskvöld á COP26 ráðstefnunni í Glasgow. Framlengja þurfti loftslagsráðstefnuna um einn dag til að komast að málamiðlun. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir að það endurspeglaði fyrst og fremst skort á pólitískum vilja til að ganga eins langt og nauðsyn krefði. 

Í Glasgow Loftslagssamkomulaginu felst að aðildarríkin 197 eru hvött til þess að koma til fundar að ári á COP27 í Egyptalandi með metnaðarfyllri áætlanir.

Alok Sharma forseti COP26 átti í erfiðleikum með að halda aftur tárum þegar hann tilkynnti um breytingar sem gerðar voru á síðustu stundu á samningnum. Kína og Indland sættu sig ekki þegar upp var staðið við orðalag í samningnum þess efnis að kolanotkun yrði smám saman hætt. Þess í stað segir í lokaniðurstöðunni að smám saman skuli dregið úr „skefjalausri” kolanotkun og bundinn endi á „óskilvirkar niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti.”

Baðst afsökunar

COP26
Patricia Espinosa forstjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alok Sharma forseti COP26. Mynd: CUNFCCC/Kiara Worth

Sharma baðst afsökunar á „hvernig mál hefðu þróast” og bætti því að margir þátttakendur væru “verulega vonsviknir” yfir því að sterkara orðalagið hefði ekki skilað sér í lokasamkomulagið.

En á meðal annara samþykkta og yfirlýsinga sem saman mynda ákvarðanir COP26 má nefna að ríkisstjórnir skuldbundu sig til að skila áætlunum um að flýta niðurskurði losunar gastegunda sem valda gróðurhúsalofttegundum.

Í samkomulaginu segir um hinn umdeilda loftslagsaðgerða-stuðning til þróunarríkja að afla beri fjár hvarvetna til að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins um 100 milljarða dala fjárveitingar á ári hið minnsta.

Annar lykil-árangur COP26

Auk pólitískra samningaviðræðna og leiðtogafundar, tóku 50 þúsund manns þátt í COP26 ýmist á staðnum eða á netinu. Kynnt var nýsköpun, lausnir og stofnað til samstarfs og bandalaga, auk ýmissa menningarviðburða.

Ráðstefnan var þannig vettvangur ýmissa jákvæðra tilkynninga. Þar má sérstaklega nefna að leiðtogar meir en 120 ríkja, sem hýsa 90% skóglendi heims, hétu að stöðva eyðingu skóga og hefja endurheimt fyrir 2030.

Þá er ástæða til að nefna að meir en 100 ríki undir forystu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hétu því að draga verulega úr losun metans (mýrargass) fyrir 2030. Metan veldur gróðurhúsaáhrifum.

Enn má geta þess að rúmlega 40 ríkju samþykktu að stefna að því að færa orkunotkun sína frá kolum, en þau eru einn stærsti orsakavaldur losunar CO2 í andrúmsloftið. Á meðal ríkjanna voru Pólland, Víetnam og Chile, sem öll eru stórnotendur kola.

Einkageirinn lét verulega til sín taka. Nærri 500 alþjóðleg fjármálafyrirtæki samþykktu að fjárfestingar að upphæð 230 trilljóna Bandaríkjadala skyldi hafa markmið Parísarsamningsins að leiðarljósi. Þetta er andvirði um 40% þeirrar upphæðar sem fjárfest er í heiminum.

Þá kom á óvart að Bandaríkin og Kína skyldu heita því að taka upp samvinnu í loftslagmálum. Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðust þessi stórveldi ætla að vinna saman að því að draga úr metanlosun, auka notkun hreinnar orku og draga úr kolefnisnotkun.

Fleiri en 100 ríkisstjórnir, borgir, fylki og helstu bifreiðaframleiðendur undirrituðu Glasgow yfirlýsinguna um losunarlausar bifreiðir. Þar er gert ráð fyrir að hætta sölu bifreiða með sprengihreyfli fyrir 2035 á helstu mörkuðum og fimm árum síðar í öllum heiminum .

Þessu til viðbótar má nefna frumkvæði Dana og fleiri ríkja um að hætta nýtingu og leit að olíu og gasi. 

 

Unsplash/Patrick Federi