Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt bæði þjóðríki og fyrirtæki til þess að tryggja að COVID-19 bólusetningar hafi hafist í öllum ríkjum veraldar fyrir 7.apríl – Alþjóða heilbrigðisdaginn.
Þetta yrði táknrænt aðgerð sem myndi glæða vonir um að heimurinn muni standa af sér faraldurinn. Og ekki síður að takast megi að yfirvinna þann ójöfnuð sem býr að baki margri heilsuvá í heiminum í dag.
„Heimurinn stendur á barmi siðferðisbrests. Gjaldið sem greiða þarf fyrir slíkan brest er greitt með lífum og lífsafkomu fólks í fátækustu ríkjum heims,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.
Stofnunin hvatti til þess í ársbyrjun að öll ríki heims tækju höndum saman til þess að tryggja að bólusetningar heilbrigðisstarfsmanna og eldra fólks hefðu hafist í öllum ríkjum á fyrstu hundrað dögum ársins.
Undirritun yfirlýsingar
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hvetur einstaklinga jafnt sem samtök að undirrita yfirlýsingu um jafnræði í bólusetningum í heiminum. Yfirlýsinguna má lesa og undirrita hér. Þar segir meðal annars:
„Við undirrituð samtök og einstaklingar, hvetjum leiðtoga jafnt heims- sem landsvísu til þess að hraða bólusetningum á jafnréttisgrundvelli í hverju ríki. Bólusetja ber heilbrigðisstarfsmenn fyrst og þá sem stafar mest hætta af COVID-19. Til þess að svo megi verða þarf að auka framleiðslu bóluefnis og hafna þjóðernishyggju í bólusetningum í hvívetna,” segir í yfirlýsingunni.
2021 hefur verið lýst Alþjóðlegt ár heilbrigðis- og umönnunarstarfsfólks í þakklætisskyni fyrir einarða frammistöðu þess í baráttunni gegn COVID-19 faraldrinum.
Undirskriftasöfnin er kjarni herferðar WHO sem styðst við myllumerkið #VaccinEquity á samfélagsmiðlum. Herferðin er til stuðnings alþjóðlegu samstarfverkefnunum COVAX og ACT Accelerator. Þau fela í sér samstarf um dreifingu bóluefnis, greiningaraðferða og meðferð um allan heim.