6 starfsmenn UNRWA drepnir á sama tíma og bólusetningum lýkur

Eitt nærri 560 þúsund barna sem var bólusett.
Eitt nærri 560 þúsund barna sem var bólusett. Mynd: WHO

Gasasvæðið. Bólusetning.

Um 560 þúsund börn yngri en tíu ára hafa verið bólusett í fyrstu lotu bólusetningarherferðarinnar á Gasasvæðinu gegn lömunarveiki. Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, sagði að bólusetningarnar fælu í sér gríðarlegan árangur „í sorglegum hversdegi ” tveggja milljóna íbúa Gasa.

Bólusetningarnar fóru fram í þremur lotum á tólf dögum frá 1.-12.september. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar þeirra bólusettu alls 558 963 börn. Aðstæður voru erfiðar vegna átakanna. Ná þurfti til barna hjá fjölskyldum sem flestar hafa flosnað upup og hafast við í ýmsum skýlum, tjöldum eða búðum.

Endurtaka þarf bólusetningarnar eftir nokkrar vikur.

Árásin hafi í för með sér mesta mannfall í hópi UNRWA-starfsmanna frá upphafi átakanna. Mynd: UNRWA.
Árásin hafi í för með sér mesta mannfall í hópi UNRWA-starfsmanna frá upphafi átakanna. Mynd: UNRWA.

220 UNRWA starfsmenn látist í átökum

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur harmað dauða sex starfsmanna Palestínuflóttamannahjálparinnar, UNRWA, og að minnsta kosti 28 annara í árás Ísraels á skóla í Nuseirat í miðhluta Gasa.

Ísraelsher segist hafa gert árás á skóla sem húsir flóttafólk, því Hamasliðar hafi notað hann sem bækistöð. Stéphane Dujarric talsmaður Guterres segir að rannsaka beri atvikið rækilega af óháðum aðilum.

Alls hafa 220 starfsmenn UNRWA látist síðan átök blossuðu upp í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas á Ísrael fyrir tæpu ári.