Lömunarveiki. Bólusetning. Gasasvæðið.
Fyrsti hluti bólusetningarherferðar gegn lömunarveiki (mænusótt) hófst á Gasasvæðinu í gær.
Palestínuflóttamannahjálpin (UNRWA), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og samstarfsaðilar hyggjast bólusetja rúmlega 600 þúsund börn, tvívegis hvert.
„Til þess að þetta heppnist verða stríðandi fylkingar að virða tímabundin vopnahlé,” skrifaði Philippe Lazzarini forstjóri UNRWA á X sem áður hét Twitter.
„Varanlegt vopnahlé er löngu tímabært í þágu barnanna í þessum heimshluta.”
Friður er besta bóluefnið
Bólusetningarherferðin kemur í kjölfar þess að fyrsta lömunarveikitilfellið í aldarfjórðung greindist á Gasa. Þúsundir barna hafa þegar verið bólusett í herferðinni sem hófst í gær (1. september).
„Börnin á Gasa fá nú löngu tímabæra bólusetningu við lömunarveiki. Þegar upp er staðið er friður þó besta bóluefnið fyrir þessi börn,” skrifaði Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO á X.
Bólusetja þarf 95%
Bólusetja þarf að minnsta kosti 95 af hundraði í hvorri lotu herferðarinnar til að koma í veg fyrir útbreiðslu lömunarveiki og draga úr líkum á að hún skjóti upp kollinum að nýju. Þetta er ekki síst nauðsynlegt vegna þeirra skakkafalla sem heilbrigðis-, vatns- og hreinlætisþjónusta á Gasasvæðinu hafa orðið fyrir.
Bólusetningarhlutfall var almennt hátt á Gasa þegar átök blossuðu upp í október 2023. Hins vegar hefur hlutfall bólusettra minnkað úr 99% 2022 í innan við 90% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta hefur aukið líkur á að sjúkdómar, sem hægt er að koma í veg fyrir með bólusetningu, breiðist út til barna, þar á meðal lömunarveiki.