Fyrstu skammtarnir af bóluefni frá Íslandi hafa borist til Côte d’Ivoire (Fílabeinsstrandarinnar). 35.700 skammtar af AstraZeneca-bóluefninu bárust með flugi til Abidjan 19.september. Þeir eru hluti af framlagi Íslands til COVAX-samstarfsins. Alls er framlagið 125.726 skammtar af bóluefninu auk 750 milljóna króna fjárframlags fyrr á árinu til Gavi COVAX AMC. Það er samstarfsverkefni um að útvega 92 meðal- og lágtekjuríkjum bóluefni við COVID-19.
Í fréttatilkynningu frá GAVI segir að framlag Íslands sé mikilvægt skref í þá átt að hemja skæðasta hluta faraldursins. „Ísland er staðráðið að leggja sín lóð á vogarskálarnar,” er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. “Jafn aðgangur að bóluefni snýst ekki aðeins um samstöðu á heimsvísu heldur er það í okkar allra þágu.”
Rausnarlegt framlag Íslands
„Ísland hefur látið meira af hendi rakna til þróunar og lýðheilsu en búast mætti við,” segir Dr Seth Berkley, forstjóri Gavi bóluefna-bandalagsins, sem sér um útboð og dreifingu fyrir hönd COVAX. „Íslenska bóluefna-sendingin á vegum COVAX sýnir að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að láta sitt af mörkum til jafns aðgangs í heiminum að bóluefni.”
Bóluefna-skammtarnir sem Ísland gefur eru framleiddir af AstraZeneca. Með þátttökunni í COVAX er tryggt að bóluefnið berist sem víðast og að ekkert fari til spillis. Með því er stigið skref í átt til að vinna gegn skæðasta hluta faraldursins.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) leggja hönd á bagga við að koma bóluefninu til skila.