11.janúar 2017. Fyrstu stundir ævinnar skipta máli og lítil börn þurfa á athygli foreldra sinna að halda.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur hleypt af stokkunum herferð sem nefnist #Fyrstu stundirnar skipta máli (#EarlyMomentsMatter) til að vekja fólk til vitundar um þýðingu fyrstu reynslu barnsins á þróun heila þess.
Norræn fyrirtæki á borð við LEGO, H&M og IKEA hafa tekið höndum saman við UNICEF um að minna á að lengi býr að fyrstu gerð eins og segir í málshættinum.
Á fyrstu þremur árum æfinnar myndar mannsheilinn allt að eitt þúsund nýjar tengingar á hverri sekúndu sem líður. Þessar tengingar eru sá grunnur sem allur framtíðarlærdómur, heilsa og hamingja hvílir á. Hins vegar ná þessar tengingar ekki fullum þroska án uppeldis og umönnunar, hvort heldur sem er fullnægjandi næringar, örvunar, ástar eða verndar frá álagi og ofbeldi.
Talið er að mörg þeirra barna sem standa höllustum fæti hvað þetta varðar – eða 250 milljónir alls- búi í þriðja heiminum, en það er langt frá því að vera einhlítt. Börn í þróuðum og ríkum löndum eiga á hættu að alast upp í örvunarsnauðu- og hættulegu umhverfi á mikilvægum myndunarárum. Slíkt stofnar í hættu vitsmunalegum-, félagslegum-, og tilfinningalegum þroska þeirra.
Margt bendir til að sögn kennara og rannsókna sem eru þó enn á frumstigi, að það dugi til að hamla þroska að foreldrarnir séu að fikta við snjallsíma sína í stað þess að tengjast börnunum á virkan hátt. Svo mikið er víst að aukinnar áherslu og fjárfestinga í þroska barna á fyrstu árunum er þörf í öllum ríkjum heims.
Herferð UNICEF er ætlað að vekja fólk til vitundar um vísindalega þekkingu á virkni heilans og hvetja til þess að áhersla sé lögð á þroska barna í frumbernsku.
„Það er mikilvægt að hafa í huga að fjárfesting í frumbernsku kostar ekkki mikið,“ segir Flavio Cunha, hagfræðingur við Rice-háskóla í myndbandi UNICEF. „ Það kostar ekki neitt að að knúsa og leika við börn, fela sig á bakvið bók eða potta og pönnur.“
Á meðan á herferðinni stendur mun UNICEF hvetja ríkisstjórnir til að auka fjárfestingar i frumbernskunni, auka heilsugæslu og félagsleg úrræði fyrir ung börn og efla stuðning við foreldra og þá sem sinna umönnun minnstu barnanna.
Myllumerki herferðarinnar á samfélagsmiðlum er #BorðaLeikaElska
(#EatPlayLove)
Myndir: Abner, tveggja ára í örmum föður síns, James Choc í Belize. UNICEF/Roger LeMoyne