Blóð tengir okkur öll

blood

blood

14.júní 2016. Auka verður ókeypis blóðgjafir sjálfboðaliða í meir en helmingi landa heims, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Í dag er alþjóðlegur dagur blóðgjafa.

Í ár er þema blóðgjafadagsins “Blóð tengir okkur öll.” Vígorðið “Deilum lífi, gefum blóð,” á að vekja athygli á hlutverki sjálfboðaliða kerfis í blóðgjöf í því að fólk láti sig aðra skipta og efla samheldni samfélagsins. Talið er að einungis 1% íbúa þurfi að gefa blóð til að fullnægja eftirspurn í hverju ríki fyrir si.g

,Þó margt greini okkur í sundur á ytra borðinu, þá rennur sams konar blóð í æðum okkar,” segir Dr. Margaret Chan, forstjóri WHO. ,Með því að gefa blóð sjálfviljug og ókeypis, gefum við líf, sem er það dýrmætasta sem nokkur manneskja getur gefið eða þegið.”

Um 108 milljónir einstakra blóðgjafa eru skrásettar í heiminum árlega. Tekið er á móti um helming allra blóðgjafa í hátekjuríkjum þar sem innan við 20% jarðarbúa eiga heima. Meðal tíðni blóðgjafa er meir en 9 sinnum meiri í hátekjuríkjum en lágtekjuríkjum.

Sums staðar er eftirspurn meiri en framboð og blóðbankar eiga í erfiðleikum með að hafa nægilega mikið blóð til reiðu og tryggja á sama tíma öryggi. Einungis er hægt að halda úti viðunandi þjónustu ef fólk gefur blóð sjálfviljugt og án þess að krefjast greiðslu.

Töluverðu máli skiptir að gefa reglulega blóð því slíkt dregur úr áhættu á smiti við blóðgjöf, þar á meðal HIV og lifrarbólgu.

25 ríki í heiminum hafa ekki getu til að skima allt blóð sem gefið er, eða hafa ekki nægilegan búnað til að gera prufur, skortir vinnuafl eða rannsóknarstofur til að gera nauðsynlegar rannsóknir.

WHO hvetur öll ríki til að koma upp blóðbönkum sem byggja á sjálfviljugum, ókeypis blóðgjöfum. Í dag eru aðeins 62 ríki nálægt því að byggja blóðbanka sína algjörlega upp á þennan hátt en í 34 ríkjum kemur 75% birgða frá ættingjum eða með því að greiða fyrir blóðgjöf.