Bjarni Benediktsson fagnaði samþykkt Sáttmála framtíðarinnar

Bjarni Benediktsson ávarpar leiðtogafundinn 22.september.
Bjarni Benediktsson ávarpar leiðtogafundinn 22.september. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

Leiðtogafundur um framtíðina

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fagnaði samþykkt Sáttmálans um framtíðina þegar hann ávarpaði Leiðtogafundinn um framtíðina síðdegis sunnudag 22.september.

„Þær aðgerðir sem við höfum skuldbundið okkur til, ná ekki jafn langt og við hefðum viljað, en þó er mörgu að fagna þegar samstaða hefur náðst,“ sagði forsætisráðherra.

Hann nefndi sérstaklega ákvæði um sjálfbæra þróun og Heimsmarkmiðin, mannréttindi og réttarríkið. Bjarni gerði málefni hinsegin fólks að umræðuefni og sagði sérstakt fagnaðarefni að samþykkt hafi verið ákvæði um jafnrétti kynjanna, þar á meðal kynbundið ofbeldi.

Jafnframt fagnaði hann að fjallað væri um málefni hafsins.

„Heilbrigð höf eru þýðingarmikil fyrir heilbrigða plánetu,” sagði Bjarni í ræðu sinni.

Hitti Guterres

Hann lagði einnig áherslu á að ekki væri nægjanlegt til að endurheimta tapað traust á alþjóðlegri samvinnu að ítreka fyrri skuldbindingar.

Fyrr í dag hitti Bjarni António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að máli og ræddu þeir um leiðtogafundinn og sáttmála framtíðarinnar, Úkraínu og ástandið í Mið-Austurlöndum.

Ræðu forsætisráðherra má lesa hér.