António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að lifslíkur jarðarbúa myndu aukast um 20 mánuði ef notkun jarðefnaeldsneyta yrði hætt. Þetta samsvarar því að lífi 5.5 milljóna manna yrði bjargað á hverju ári eða sem samsvarar nærri öllum íbúafjölda Danmerkur.
Ræða aðalframkvæmdastjórans um loftslagsbreytingar var flutt fyrir indverska áheyrendur. Guterres sagði að fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti þýddu fjölgun dauðsfalla og aukinn kostnað við heilsugæslu.
„Á þessu ári hafa vísindamenn í Bandaríkjunum komist að þeirri niðurstöðu að dánarlíkur fólks af völdum COVID-19 séu meiri á þeim svæðum þar sem loftmengun er mikil. Þetta er einfaldlega mannlegur harmleikur og slæm hagfræði,” sagði Guterres.
27 milljónir starfa á 3 árum
Aðalframkvæmdastjórinn flutti í dag 19.minningarfyrirlesturinn um indverska frumkvöðulinn Darbari Seth. Þar færði hann rök fyrir því að sjálfbærar aðgerðir fjölgi störfum, tryggi fleirum aðgang að orku, dragi úr losun koltvísýrings og bæti heilsu.
„Fjárfestingar í hreinni orku gætu skapað 9 milljónir starfa á hverju ári næstu þrjú árin,” sagði Guterres. „Fjárfesting í endurnýjanlegum orkugjöfum skapar þrisvar sinnum fleiri störf en fjárfestingar í mengandi jarðefnaeldsneyti. Nú þegar fjöldi manns gæti orðið fátækt að bráð vegna COVID-19 faraldursins, er atvinnusköpun af þessu tagi tækifæri sem ekki má glatast.”
Guterres fagnaði þeirri jákvæðu þróun að auknar fjárfestingar og aðgerðir til að auka eftirspurn, tækju mið af því að draga úr kolefnisspori. Nefndi hann sérstaklega ákvarðanir Evróðusambandsins, Bretlands, Þýskalands og Suður-Kóreu um hvernig takast eigi á við afleiðingar faraldursins.
Neikvæð þróun
„En þótt þessi jákvæðu teikn séu mikil hvatning hef ég líka áhyggjur af neikvæðri þróun. Úttekt á endurreisnartillögum innan G20 ríkjahópsins bendir til að tvisvar sinnum meira fé sé varið í jarðefnaeldsneyti en til hreinnar orku.”
Aðalframkvæmdastjórinn hefur hvatt G20 ríkin til að fjárfesta í hreinni, orku og grænum orkuskiptum í viðleitni til að bregðast við COVID-19.
„Þetta felur í sér að bundinn verði endi á niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti og skuldbindingar um enga nýja kolavinnslu eftir 2020.”
Hann hvatti ríki heims til sex loftslagsvænna aðgerða til að takast á við faraldurinn.
„Fjárfestið í grænum störfum. Ekki bjarga mengandi iðngreinum. Hættið niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Takið loftslagsáhættu með í reikninginn í fjárhagslegum ákvörðunum og stefnumótun. Vinnum saman. Og að sem mikilvægast er: skiljum engann eftir,” sagði Guterres að lokum.