Beasley forstjóri WFP á Íslandi

Beasley og Þórdís Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Beasley og Þórdís Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Mynd: utn.
WFP/Ísland. David Beasley forstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) er staddur hér á landi og fundaði með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í hádeginu.Alvarleg staða mannúðarmála í heiminum og stuðningur Íslands við WFP voru á meðal umræðuefna fundarins en íslensk stjórnvöld tilkynntu í vikunni að þau myndu tvöfalda kjarnaframlag sitt til stofnunarinnar á þessu ári eða sem nemur hundrað milljón krónum.

Aldrei meiri þörf

„Þörfin á mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri og skýrist hún meðal annars af aukinni fátækt, stríðsátökum, áhrifum loftslagsbreytinga og COVID-19 faraldrinum. Við Beasley áttum gott samtal um stöðu mála og hét ég honum áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við mikilvæg störf Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þórdís Kolbrún um fundinn.

Beasley hóf daginn á heimsókn í Alþingi þar sem hann ræddi bæði við utanríkismálanefnd. Síðar í dag heldur hann svo á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2020 fyrir baráttu stofnunarinnar gegn hungri, fyrir að stuðla að bættum aðstæðum fyrir friði á átakasvæðum og fyrir aðgerðir til að afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum. Þá hefur stofnunin um langt skeið verið ein af áherslustofnunum Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð og veita íslensk stjórnvöld árleg kjarnaframlög til hennar auk þess að bregðast við neyðarköllum frá stofnuninni eftir föngum.

(Utanríkisráðuneytið)