Banki stendur við stóru orðin

Umhverfisvænir forstjórar ásamt forsætisráðherrum Norðurlanda
Oddvitar fyrirtækja sem vilja sjálfbæra framtíð með forsætisráðherrum Norðurlanda

Ís­lands­banki tók ný­verið upp fjögur heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna. Hefur bankinn hafið samstarf við Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð til að vinna að framgangi þeirra.

Íslandsbanki hefur ekki látið sér yfirlýsingar nægja og hefur yfirlýstur vilji bankans til að beina viðskiptum til fjölmiðla sem vilja stuðla að kynjajafnvægi á meðal viðmælenda vakið athygli.

Norrænt samstarf

Bankastjóri Íslandsbanka segir þátttaka bankans í hinu norræna samstarfi skipta verulegu máli.„Þetta er mikilvægt vegna þess að þarna eru að koma saman fyrirtæki sem eru leiðandi annað hvort á sínu sviði eða í sínu heimalandi,” segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri í viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC. „Þessar stóru breytingar sem þarf að ýta úr vör gerast ekki án þátttöku fyrirtækja. Þarna eru aðilar sem hafa ekki aðeins brennandi áhuga heldur einnig slagkraft. Það er hlustað á þessi fyrirtæki. Þau eru líkleg til að geta að ýta málum áfram með því að sýna fyrirmynd í verki. Við erum afar stolt af því að vera þátttakendur í þessu.”

Bankinn hefur lýst yfir að hann muni taka þátt í stórum sem smáum verkefnum þar sem fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi. Þau eru: aðgerðir í loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og nýsköpun og uppbygging.

Það vakti athygli þegar Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri fyrirtækisins skrifaði grein í Fréttablaðið.

„Við gefum ekki börnum plast­vörur fyrir að spara heldur aukum við skemmti­lega upp­lifun, við forðumst að kaupa þjónustu af fyrir­tækjum sem fylla her­bergið að­eins af karl­mönnum, við prentum ekki skýrslur og við kveðjum aug­lýsingar hjá fjöl­miðlum sem bjóða upp á af­gerandi kynja­halla,” skrifaði Edda.

Viðbrögð

Viðbrögð létu ekki á sér standa. Ráku aðallega fjölmiðlamenn og nokkrir stjórnmálamenn upp ramakvein.

„Þetta er hluti af okkar innkaupastefnu líkt og tíðkast víða hér á landi og erlendis. Við erum ekki hafa afskipti af ritstjórnarstefnu fjölmiðla enda er þetta aðeins umræða sem við eigum við auglýsingadeildir og hafa þau samtöl gengið vel. Þá er verið að ræða viðleitni og stefnu um að það sé verið að fara í ákveðna átt, en það er langt í frá að séum að gera kröfu um ákveðinn fjölda viðmælenda. Þessi ummæli voru oft mistúlkuð en við hefðum átt að útskýra þau enn betur í upphafi,” segir Edda.

Íslandsbanki hefur kallað eftir upp­lýsingum frá fjölmiðlum um kynja­hlut­föll bæði starfs­manna og við­mælenda. Fram að þessu hefur eingöngu RÚV mælt og birt slikt hlut­fall. Samkvæmt rannsókn frá 2017 voru kvenkyns viðmælendur ljósvakamiðla á Íslandi 35% af heildarfjölda og hafði fjölgað um tvö prósent á milli ára.

En viðbrögðin voru langt í frá eingöngu neikvæð. Margir fögnuðu því opinberlega að fyrirtæki léti sig jafnréttismál varða ekki aðeins í orði heldur á borði.

„Það voru auðvitað neikvæðar raddir en það voru líka margar jákvæðar raddir og við fundum líka vel fyrir þeim. Við munum í framhaldi útskýra stefnuna vel enda mikilvægt að sýna hvaða merkingu heimsmarkmiðin hafa í daglegum rekstri ,” segir Edda.

Íslandsbanki starfar í samræmi við samfélagsstefnu og hluti af henni eru ábyrg innkaup sem taka til allra birgja, en ekki bara fjölmiðla eins og Edda bendir á. Heimsmarkmiðin eru síðan einnig hluti af markaðsstefnu fyrirtækisins.

Fyrirmynd

Óhjákvæmilega er spurt að því hvort fyrirtæki sem geri svo miklar kröfur til annara séu fullkomin sjálf.

„Það er hægt að tala um hlutina þótt þú sért ekki fullkomin í því sem ert að gera. Það næst enginn árangur ef sá einn má tala sem er fullkominn sjálfur,” segir Birna Einarsdóttir bankastjóri. „Við getum verið fyrirmynd í því að sýna fram á árangur með því að birta hann og í tölulegu formi. Það er mikilvægt í fyrirtækjarekstri að sett séu töluleg markmið um það sem stefnt er að og aðgerðir sem því tengjast. Þannig vinna fyrirtæki og þekkja þá aðferð.”

Norræni félagsskapurinn sem Íslandsbanki varð aðili að á síðasta ári heitir “Norrænir forstjórar í þágu sjálfbærrar framtíðar” (Nordic Ceo’s for sustainable future ). Á meðal þátttakenda eru forstjórar norsku fyrirtækjanna Equinor (áður Statoil), Hydro, Posten, Storebrand, Telenor og Yara. Þá eru Telia í Svíþjoð, Vestas í Danmörku, Nokia í Finnlandi auk norræna flugfélagsins SAS og annars íslensks fyrirtækis Marels

Birna Einarsdóttir bankastjóri segir að í samstarfi norrænu bankanna sé aðallega lögð áhersla á umhverfismál og jafnréttismál.

„Við höfum tekið þátt í umræðum um báða málaflokka. Það er mikill áhugi á að þetta verði markmiðasett og að við birtum upplýsingar um hvernig okkar fyrirtæki er að standa sig í þessum atriðum. Ég vona að þetta verði fyrirmynd fyrir aðra og ég hef trú á því að það eigi eftir að koma heilmikið út úr þessu. Þarna eru aðilar sem eru markmiðadrifnir og þess vegna tel ég að við eigum eftir að sjá árangur af þessu samstarfi.”