Ban hvetur til vopnahlés – Öryggisráðið fundar

6. janúar 2009. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var boðað til fundar síðdegis í gær að staðartíma í New York til að ræða átök Ísraela og Hamas á Gasasvæðinu. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að mannskæð árás Ísraels á skóla Sameinuðu þjóðanna þar sem hundruð flóttamanna höfðu leitað hælis, gerði það enn brýnna en ella að koma á vopnahléi.  
“Þrír skólar Palestínu-flóttamannahjálparinnar UNRWA [UN Relief and Works Agency for Palestinian Refugees in the Near East] sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu opnað flóttamönnum sem flúðu átökin, hafa verið skotmörk í þremur árásum Ísraela,” tjáði Ban Öryggisráðinu í byrjun fundarins. Langflestir hinna látnu, létust í síðustu árásinni af þremur á skóla í Jabalia-flóttamannabúðunum.   

 

“Þessar árásir Ísraelshers eru algjörlega óásættanlegar og mega ekki endurtaka sig. Þær ógna lífi fólks sem leitað hefur griða í húsnæði Sameinuðu þjóðanna. Hvers kyns aðgerðir Hamas sem stefna óbreyttum palestínskum borgurum í hættu, eru að sama skapi óásættanlegar. Ég hvet enn til tafarlauss vopnahlés.” 
Hann sagðist hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að grípa til aðgerða án tafar á fundi með  George W. Bush, forseta Bandaríkjanna fyrr sama dag og á fundum með arabískum leiðtogum þar á meðal Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Hann tók fram að hann hefði ítrekað fordæmt eldflaugaárásir Hamas á Ísrael og hóflausar árásir Ísraela með það að meintu markmiði að binda enda á slíkar árásir.” 
Framkvæmdastjórinn bætti því við að hann hyggðist halda til Ísraels og hertekinna palestínskra landsvæða í næstu viku auk þess að heimsækja höfuðborgir nágrannaríkja. “Engu að síður tel ég ekki að við getum beðið með að binda enda á ofbeldi. Við verðum að gera það hér og nú,” sagði hann.

Fundi Öryggisáðsins er haldið áfram í dag.